Sumrin eru jafnan annasamasti tími ársins hjá Náttúrustofunni, enda fer nær öll gagnasöfnun fram á þeim árstíma. Nú í haustbyrjun, þegar starfsmenn setjast við skrifborð að nýju og gagnaúrvinnsla hefst, er því ekki úr vegi að tæpa á því helsta sem í gangi var hjá okkur á nýliðnu sumri.
Náttúrustofan heldur úti þrenns konar vöktunarverkefnum sem snúa að fuglum, vatnalífi og fiðrildum. Er fuglavöktunin þar lang fyrirferðarmest en hún felur í sér talningar á vatna-, sjó- og mófuglum að vori, auk afkomumælinga síðsumars. Þá heldur Náttúrustofan úti myndavél á Langanesi sem ætlað er að fylgjast náið með varpárangri bjargfugla þar. Fuglavöktunin er unnin skv. samningi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Vöktun vatnalífs er ætlað að styðja við vöktunarrannsóknir á vatnafuglum en þar er fylgst með stofnvísitölum mýflugna, krabbadýra og hornsíla. Tilgangurinn er að fylgjast með fæðuskilyrðum vatnafugla og bera saman við varpárangur og stofnþróun. Fiðrildavöktun Náttúrustofunnar er unnin í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands sem staðið hefur fyrir vöktun fiðrilda frá árinu 1995. Fiðrildi henta vel til vöktunar á umhverfinu, m.a. áhrifum loftslagshlýnunnar og gróðurbreytinga og er vöktunin hér á landi hluti af norrænu vöktunarverkefni Moth Monitoring Scheme, sem nær til Norðurlandanna, Eystrarsaltsríkjanna og NV-Rússlands. Fiðrildagildrur Náttúrustofunnar eru tvær, önnur staðsett á Skútustöðum í Mývatnssveit, hin í Ási í Kelduhverfi.



















Síðustu ár hefur Náttúrustofan unnið talsvert að rannsóknum á farháttum og vetrardreifingu sjófugla (langvía, stuttnefja, álka, fýll og rita). Byggja þessar rannsóknir á notkun svokallaðra dægurrita, sem festir eru við fótmerki á fuglunum þar sem þeir svo safna upplýsingum um staðsetningu þeirra utan varptímans. Til að komast yfir upplýsingarnar þarf að ná fuglunum aftur. Líkt og undanfarin ár var í sumar unnið að því að endurheimta merkta fugla frá fyrri árum, auk þess að merkja nýja. Unnið var á Langanesi, við Skjálfanda, í Grímsey og á Látrabjargi. Með í föruneytið slóst að þessu sinni franskur doktorsnemi, Marléne Dupraz, sem vinnur að rannsóknum á svokölluðum lundalúsum en þær er ekki einungis að finna á lundum, heldur einnig öðrum sjófuglum.









Þjónusturannsóknir eru yfirleitt nokkuð fyrirferðarmiklar í starfsemi Náttúrustofunnar og var að venju unnið að nokkrum slíkum verkefnum í sumar. Um er að ræða bæði langtíma vöktunarrannsóknir og styttri úttektir. Langtíma þjónusturannsóknir sem Náttúrustofan hefur tekið að sér eru vöktun fugla og gróðurs á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum og vöktun Lóna í Kelduhverfi. Önnur þjónustuverkefni sumarið 2016 voru rannsókn á lífríki tjarna á Þeistareykjum, úttekt á fuglalífi og gróðri vegna fyrirhugaðrar Hólsvirkjunar í Fnjóskadal, fuglarannsóknir vegna fyrirhugaðrar Svartárvirkjunar í Bárðardal, kortlagning á útbreiðslu kerfils í Húsavíkurlandi, úttekt á fuglalífi innan framkvæmdasvæðis á Bakka og rannsókn á fuglalífi vegna fyrirhugaðrar byggðalínu á Suðurlandi, frá Sigöldu að Höfn í Hornafirði.


























