Sumarverkefni Náttúrustofunnar

Sumrin eru jafnan annasamasti tími ársins hjá Náttúrustofunni, enda fer nær öll gagnasöfnun fram á þeim árstíma. Nú í haustbyrjun, þegar starfsmenn setjast við skrifborð að nýju og gagnaúrvinnsla hefst, er því ekki úr vegi að tæpa á því helsta sem í gangi var hjá okkur á nýliðnu sumri.

Náttúrustofan heldur úti þrenns konar vöktunarverkefnum sem snúa að fuglum, vatnalífi og fiðrildum. Er fuglavöktunin þar lang fyrirferðarmest en hún felur í sér talningar á vatna-, sjó- og mófuglum að vori, auk afkomumælinga síðsumars. Þá heldur Náttúrustofan úti myndavél á Langanesi sem ætlað er að fylgjast náið með varpárangri bjargfugla þar. Fuglavöktunin er unnin skv. samningi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Vöktun vatnalífs er ætlað að styðja við vöktunarrannsóknir á vatnafuglum en þar er fylgst með stofnvísitölum mýflugna, krabbadýra og hornsíla. Tilgangurinn er að fylgjast með fæðuskilyrðum vatnafugla og bera saman við varpárangur og stofnþróun. Fiðrildavöktun Náttúrustofunnar er unnin í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands sem staðið hefur fyrir vöktun fiðrilda frá árinu 1995. Fiðrildi henta vel til vöktunar á umhverfinu, m.a. áhrifum loftslagshlýnunnar og gróðurbreytinga og er vöktunin hér á landi hluti af norrænu vöktunarverkefni Moth Monitoring Scheme, sem nær til Norðurlandanna, Eystrarsaltsríkjanna og NV-Rússlands. Fiðrildagildrur Náttúrustofunnar eru tvær, önnur staðsett á Skútustöðum í Mývatnssveit, hin í Ási í Kelduhverfi.

img_2174
Sjófuglar eru taldir á sniðum í Skoruvíkurbjargi og í Grímsey en auk þess er fýlar taldir í Ásbyrgi og ritur í björgum í nágrenni Húsavíkur.

 

img_5248
Mófuglar eru taldir árlega á alls 175 föstum punktum í Þingeyjarsýslum.

 

20150605_140945
Náttúrustofan hefur síðustu tvö sumur notast við sjálfvirka myndavél til vöktunar á varpárangri svartfugla í Skoruvíkurbjargi.

 

2013-07-19-11-37-59
Flugnagildrur Náttúrustofunnar eru settar upp í maí og tæmdar mánaðarlega yfir sumarið þar til þær eru teknar niður í lok ágúst. Gildrunar eru við Víkingavatn, Skjálftavatn, Ástjörn, Miklavatn og Sílalækjarvatn. Gildrunum er ætlað að veita upplýsingar um ástand flugnastofna í vatninu.

 

20160901-dsc_1078
Svifsýni eru tekin mánaðarlega í Víkingavatni og Miklavatni yfir sumartímann. Þeim er ætlað að gefa upplýsingar um ástand krabbadýrastofna.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Hornsíli eru veidd í Víkingavatni í lok ágúst ár hvert en þau eru aðalfæða flórgoðans.

 

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Fiðrildagildra Náttúrustofunnar í Ási í Kelduhverfi. Gildrurnar eru settar upp í apríl og eru teknar niður í nóvember. Tæmingar eru vikulegar.

 

Síðustu ár hefur Náttúrustofan unnið talsvert að rannsóknum á farháttum og vetrardreifingu sjófugla (langvía, stuttnefja, álka, fýll og rita). Byggja þessar rannsóknir á notkun svokallaðra dægurrita, sem festir eru við fótmerki á fuglunum þar sem þeir svo safna upplýsingum um staðsetningu þeirra utan varptímans. Til að komast yfir upplýsingarnar þarf að ná fuglunum aftur. Líkt og undanfarin ár var í sumar unnið að því að endurheimta merkta fugla frá fyrri árum, auk þess að merkja nýja. Unnið var á Langanesi, við Skjálfanda, í Grímsey og á Látrabjargi. Með í föruneytið slóst að þessu sinni franskur doktorsnemi, Marléne Dupraz, sem vinnur að rannsóknum á svokölluðum lundalúsum en þær er ekki einungis að finna á lundum, heldur einnig öðrum sjófuglum.

SONY DSC
Svartfuglar með dægurrita veiddir í Skoruvík.

 

20160627-dsc_0649
Rita með dægurrita veidd í Saltvík. Úr fuglunum er tekið blóð og þeir mældir í bak og fyrir og nýir dægurritar settir á þá áður en þeim er sleppt.

 

20160702_170250
Hin franska Marléne Dupraz safnaði lundalúsum af sjófuglum í sumar fyrir rannsókn sína.

 

Þjónusturannsóknir eru yfirleitt nokkuð fyrirferðarmiklar í starfsemi Náttúrustofunnar og var að venju unnið að nokkrum slíkum verkefnum í sumar. Um er að ræða bæði langtíma vöktunarrannsóknir og styttri úttektir. Langtíma þjónusturannsóknir sem Náttúrustofan hefur tekið að sér eru vöktun fugla og gróðurs á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum og vöktun Lóna í Kelduhverfi. Önnur þjónustuverkefni sumarið 2016 voru rannsókn á lífríki tjarna á Þeistareykjum, úttekt á fuglalífi og gróðri vegna fyrirhugaðrar Hólsvirkjunar í Fnjóskadal, fuglarannsóknir vegna fyrirhugaðrar Svartárvirkjunar í Bárðardal, kortlagning á útbreiðslu kerfils í Húsavíkurlandi, úttekt á fuglalífi innan framkvæmdasvæðis á Bakka og rannsókn á fuglalífi vegna fyrirhugaðrar byggðalínu á Suðurlandi, frá Sigöldu að Höfn í Hornafirði.

th-02-2016-2
Gróðurvöktun á háhitasvæðum í tenglsum við virkjanaframkvæmdir eru meðal annars á Þeistareykjum.

 

k-05-2013-2
Gróðurvöktun í Kröflu er einnig hluti af gróðurvöktunum Náttúrustofunnar á háhitasvæðum.

 

20160824-dsc_1033
Náttúrustofan hefur frá því árið 2010 séð um vikulegar mælingar á blaðgrænu í Lónum í Kelduhverfi allt árið um kring. Náttúrustofan sér einning um vöktun á botndýralífi Lónanna og eru sýni tekin þriðja hvert ár. Í sumar var komið að botnsýnatökum öðru sinni.

 

20160819_145052
Náttúrustofan gerði úttekt á tveimur tjörnum á Þeistareykjum sumarið 2011, sú úttekt var endurtekin nú í sumar. Tekin voru bæði botn- og svifsýni.

 

00001057
Vegna umhverfismats fyrir Hólsvirkjun í Fnjóskadal gerði Náttúrustofan úttekt á gróðri og fuglalífi í sumar.

 

20160803-dji_0527
Náttúrustofan gerði úttekt á dreifingu straumanda í Bárðardal fyrir umhverfismat vegna fyrirhugaðrar Svartárvirkjunar.

 

img_0733
Kortlagning Náttúrustofunnar á útbreiðslu kerfils í Húsavíkurlandi fór fram í sumar.

 

img_0779
Náttúrustofan kannaði fuglalíf innan framkvæmdasvæðis á Bakka en þar er m.a. að finna kríuvarp.

 

20160602-dsc00140
Fuglalíf var kannað vegna umhverfismats fyrir línuleið á Suðausturlandi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin