Nú þegar hausta tekur lýkur smám saman útiverkum Náttúrustofunnar þetta árið en vor og sumar er sá tími sem að langmestu leyti er nýttur til gagnaöflunar í hinum ýmsu verkefnum. Sumarið 2019 var sextánda sumarið sem gögnum um náttúrufar var safnað á vegum stofunnar. Þess má geta að það verkefni sem fylgt hefur stofunni hvað lengst eða allt frá upphafi er vöktun vatnafugla á láglendisvötnum í Þingeyjarsýslum. Einnig er áhugavert að minnast þess, nú þegar hyllir undir að nýr Dettifossvegur verði kláraður, að úttekt á fuglalífi á áhrifasvæði vegarins var fyrsta þjónusturannsóknin sem Náttúrustofan tók að sér fyrsta starfssumarið sitt árið 2004.
Fuglavöktun er fyrirferðamikil í starfsemi Náttúrustofunnar en hún er unnin samkvæmt samningum við umhverfis- og auðlindaráðuneytið annars vegar og Umhverfisstofnun hins vegar. Um er að ræða vöktun á fuglalífi í Þingeyjarsýslum og vöktun bjargfugla á landsvísu en Náttúrustofan hefur haft umsjón með þeirri vöktun frá árinu 2016 og vinnur í samstarfi við aðrar náttúrustofur. Auk árlegra fuglavöktunarverkefna hafði Náttúrstofan umsjón með úttekt á dreifingu og stofnstærð þórshana á landsvísu sumarið 2019. Slíka úttekt hefur verið reynt að gera á u.þ.b. 5 ára fresti. Unnið var í samstarfi við einstaklinga og stofnanir.

Náttúrustofan hefur haldið úti vöktun á lífríki láglendisvatna við Skjálfanda og Öxarfjörð að sumarlagi frá árinu 2006. Fylgst er með ástandi mýflugnastofna í Miklavatni, Sílalækjarvatni, Víkingavatni og Skjálftavatni allt sumarið. Krabbadýrum er safnað mánaðarlega í Miklavatni og Víkingavatni og hornsíli veidd síðsumars í Víkingavatni. Vatnavöktun Náttúrustofunnar er ætlað að styðja við fuglavöktunarverkefnin, með það fyrir augum að afla upplýsinga sem skýrt gætu þróun fuglastofnanna.



Frá árinu 2009 hefur Náttúrustofan stundað rannsóknir á ferðum fugla utan varptíma og þannig kortlagt mikilvæg búsvæði þeirra. Rannsóknin fer fram á Langanesi, í Ærvíkurbjargi og Skeglubjörgum við Skjálfanda, í Grímsey og á Látrabjargi og er henni beint að fjórum tegundum sjófugla; fýl, ritu, langvíu og stuttnefju. Lítil tæki sem safna upplýsingum um staðsetningu eru fest á fuglana og þarf að ná fuglunum aftur að ári til að nálgast upplýsingarnar. Rannsóknin er unnin í alþjóðlegu samstarfi, SEATRACK. Hægt er að fræðast meira um verkefnið og skoða niðurstöður um dreifingu fugla á heimasíðu verkefnisins hér.



Nýtt rannsóknarverkefni, sem einnig tengist sjófuglum og ber heitið LOMVIA, hófst sumarið 2019 og er gert ráð fyrir framhaldi árið 2020. Snýr það að því að rannsaka ferðir, fæðuöflunarsvæði og fæðu langvíu og stuttnefju á varptíma í mismunandi sjógerðum við Ísland. GPS gagnaritar eru festir á fuglana, ásamt dýptarritum, sem afla nákvæmra upplýsinga um fæðuöflunarferðir og fæðuatferli þeirra. Einnig er gögnum um fæðu fuglanna safnað. Verkefnið er unnið undir forystu Normans Ratcliffe, líffræðings hjá British Antarctic Survey. Náttúrustofan er formlegur aðili að verkefninu og öfluðu starfsmenn hennar gagna um ferðir og fæðu fugla frá Langanesi sl. sumar. Auk rannsóknarteymis Náttúrustofunnar á Langanesi voru þrjú rannsóknateymi skipuð erlendum vísindamönnum að störfum á Látrabjargi, í Grímsey, í Skrúð og Papey í sumar.



Þjónustuverkefni tengd mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfisvöktun fyrirtækja hafa lengi verið áberandi í starfsemi Náttúrustofunnar og var engin breyting þar á í sumar. Meðal verkefna voru fuglarannsóknir tengdar mati á umhverfisáhrifum raflína og vindmylla, gróður- og fuglavöktun tengt jarðhitavirkjunum í Þingeyjarsýslum og vöktun botndýralífs í Lónunum í Kelduhverfi í tengslum við fiskeldi.



Önnur verkefni sumarsins tengdust að mestu leyti gróðri með einum eða öðrum hætti en Náttúrustofan kláraði kortlagningu kerfilstegunda í landi Húsavíkur, sem unnið hafði verið að síðastliðin tvö ár. Einnig hóf Náttúrustofan kortlagningu á ágengum framandi tegundum plantna í Þingeyjarsveit í sumar að beiðni Þingeyjarsveitar. Reiknað er með að því verkefni ljúki á næsta ári en gagnasöfnun sumarsins náði til Aðaldals, Laxárdals, Reykjadals og Köldukinnar.


