Styrkur til tækjakaupa

Tækjasjóður Rannís úthlutaði nýverið styrkjum til tækjakaupa á árinu 2005. Náttúrustofan sótti um styrk í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina vegna kaupa á gervitungalsendum og dýpisritum ásamt fylgibúnaði til rannsókna á hrefnu við Ísland. Stofnanirnar fengu styrk að upphæð 1730 þús. kr.

Ætlunin er að nota gervitungalsenda til að fylgjast með ferðum hrefna á fartíma að haustlagi en far og dvalarstaðir skíðishvala er ein stærsta ráðgátan í hvalarannsóknum. Búnaðurinn verður einnig notaður til að fylgjast með hrefnum á fæðuslóð við Ísland að vor- og sumarlagi en ferðir hennar á þeim tíma eru lítt þekktar. Dýpisritar verða notaðir til að kanna köfunarhegðun hrefnunnar.

Þetta er í annað sinn sem Tækjasjóður Rannís veitir Náttúrustofunni styrk en í fyrra fékk stofnunin 700 þús. kr. styrk til kaupa á tækjum til smádýrarannsókna. Mjög ánægjulegt er að Rannís skuli með þessum hætti styðja við uppbyggingu rannsóknarstarfsemi á landsbyggðinni.

hrefna
Hrefna í Skjálfanda. Mynd: Heimir Harðarson
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin