Að rannsaka fugla á sjó getur verið vandkvæðum bundið. Hafið er stórt og það sem þar gerist sést vægast sagt að mjög takmörkuðu leyti frá landi og er þá nánast alltaf um lítið brot grunnsævis að ræða. Á sama tíma er hafið mikilvægt á alþjóðavísu sökum stórra sjófuglastofna sem nýta það í mismiklum mæli, sumar tegundir eins og bjargfuglar byggja viðveru sína alfarið á hafinu meðan að aðrir fuglar, t.d. hávellur og hrafnsendur, nýta sjóinn utan varptímans. Og það eru ekki einungis íslenskir varpfuglar sem nýta íslenskt hafsvæði. Um það fara líka aðrir fuglar á leið sinni til og frá fjarlægari varp- og vetrarstöðvum en einnig koma hingað fuglar til vetursetu frá öðrum löndum. Því miður er þekking okkar á þessum atburðum mjög takmörkuð og fátt hefur verið gert til að bæta hana. Má þar helst nefna talningar framkvæmdar af Arnþóri Garðarssyni sem snúa að dreifingu sjófugla vestur og austur af landinu. Nýlega ritaði Arnþór grein um fjölda æðarfugls, hávellu, toppandar og stokkandar á grunnsævi að vetri sem birt var í tímaritinu Blika árið 2009, en hún byggir að hluta til á talningum úr lofti.

Í nágrannalöndum okkur hafa fuglar á sjó mikið verið taldir úr lofti, t.d. við strendur Grænlands, Noregs, Danmerkur og Bretlandseyja. Slíkar talningar hafa farið fram í tengslum við ýmis konar umhverfismöt, þá aðallega tengd vindmyllu- og sjávarfallavirkjanaframkvæmdum, en einnig í tengslum við reglubundna vöktun fuglastofna á mismunandi tímum árs.
Í Danmörku er öflugt teymi flugtalningarmanna, undir forystu Ib K. Petersen líffræðings, sem hefur m.a. stundað flugtalningar víðsvegar í norðan- og vestanverðri Evrópu sem og Grænlandi undanfarna áratugi. Ib og nokkrir samstarfsfélaga hans vinna hjá „National Environmental Research Institute“ sem er undir Árósa háskóla en deildin þeirra, „Department of Wildlife Ecology and Biodiversity“, er staðsett á gömlu sveitasetri í Kalø.



Starfsmanni Náttúrustofunnar bauðst í nýliðnum janúar að dvelja í Danmörku og taka þátt í flugtalningum þeirra Dana til að kynna sér þær aðferðir sem notaðar eru við slíkar talningar. Oftast er notast við svokallaðar sniðtalningar en þá er flugvélinni flogið eftir fyrirfram ákveðnum línum í 250 feta hæð og fuglar skráðir nákvæmlega alla leiðina, báðum megin við vélina og einnig er fjarlægð fugla frá vélinni skráð niður í grófum dráttum með aðstoð gráðumælis. Með þessu er síðan hægt að reikna upp þéttleika fuglanna yfir stærra svæði þar sem talið hefur verið á mismörgum sniðum. Í öðrum tilvikum eru framkvæmdar heildartalningar innan ákveðins svæðis, t.d. hluti fjarða, vötn eða eyjaklasar. Þá er flogið með öllum strandlínum og kringum allar eyjar og reynt að finna flesta fuglahópa á svæðinu. Slíkar talningar geta verið vandkvæðum bundnar en gefa þó ákveðna hugmynd um fjölga fugla. Gjarnan er notast við svona heildartalningar þegar verið er að vakta alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði sem erfið eru viðfangs af jörðu niðri.









- Hér sést yfir hluta Vaðlahafsins sem var að mestu leyti ísilagt þar sem var að finna gríðarstóra hópa fugla þétt saman í dreifðum vökum.