Náttúrustofa Norðausturlands hefur með reglubundnum hætti fylgst með (vaktað) ástandi sjófuglastofna á Norðausturlandi undanfarin ár. Vöktunin felur m.a. í sér árlegar talningar á skilgreindum talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi á Langanesi og í Grímsey. Sniðin voru upphaflega sett út og talin að frumkvæði Arnþórs Garðarssonar, prófessors við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, sem hóf staðlaðar talningar í Skoruvíkurbjargi árið 1986 en árið 2009 í Grímsey. Sniðin eru talin á sama tíma, með sömu aðferðum, ár hvert. Náttúrustofan hefur nú tekið saman niðurstöður talninga á fjórum tegundum bjargfugla í þessum tveimur byggðum sumarið 2015 (1. mynd). Benda þær til þess að tegundunum sé nokkur vandi búinn um þessar mundir, auk þess sem eldri gögn sýna fram á mjög óheillavænlega þróun (2. & 3. mynd).
Það er mikið áhyggjuefni að fækkun ritu í Skoruvíkurbjargi heldur áfram með sama takti og undanfarinn áratug. Fjöldi hreiðra í sumar er sá lægsti frá upphafi talninga, eða rétt tæp 14% af fjöldanum árið 1994 þegar stofninn var í hámarki. Sömuleiðis eru blikur á lofti í Grímsey þar sem 40% færri rituhreiður sáust í sumar samanborið við fjöldann árið áður – þó ber að nefna að fleiri ritur voru á sniðunum en þær höfðu einfaldlega ekki lagt í að hefja varp.
Eftir talsverða fækkun langvíu og stuttnefju í Grímsey og Skoruvík sumarið 2014 hafa báðar tegundir tekið svolítinn kipp upp á við síðastliðið sumar, þó minnst í Skoruvík. Fylgst verður áfram náið með þessum tegundum og þá sér í lagi stuttnefju sem sýnir stöðuga langvarandi fækkun í Skoruvík. Erfiðara er að segja til um ástandið í Grímsey þar sem um mun styttri tímaseríu er að ræða.
Breytingar á fýl virðast haldast að mestu í hendur í Grímsey og Skoruvíkurbjargi. Til langs tíma má greina fækkun í Skoruvíkurbjargi. Minniháttar sveiflur endurspegla þó ekki endilega stofnsveiflur heldur einungis fjölda fýla á varpstað hverju sinni. Um langlífa tegund er að ræða og því algengt að fuglar sleppi því að verpa séu þeir ekki í ástandi til þess og/eða vegna fæðuskorts.






