Náttúrustofunni hafa borist fregnir af þingeyskum spóa sem festur var á gervihnattasendir sl. vor í Englandi. Spóanum var gefið enska nafnið Wally sem myndi útleggjast sem Valli á íslensku.
Fylgst hefur verið náið með Valla frá því hann var merktur þann 1. maí 2005 í Lower Derwent Valley um 15 km suður af York í Englandi. Þar er þekktur viðkomustaður spóa á farleið sinni frá vetrarstöðvum í Afríku til varpstöðva á norðlægari breiddargráðum. Viðkomustaðurinn er spóum eins og Valla mikilvægur því þar dvelja þeir og éta til að safna orku í áframhaldandi farflug norður á bóginn. Viðkomufuglar í Lower Derwent Valley hafa verið taldir síðan 1987 en hin síðari ár hafa rannsóknir á viðkomufuglum aukist og eru athuganir á Valla liður í þeim rannsóknum. Rannsóknirnar eru sameiginlegt verkefni nokkurra samtaka í Englandi.
Þær upplýsingar sem fengist hafa um Valla sýna að hann er sannur Þingeyingur. Eftir að hafa yfirgefið England þann 12. maí sýndi gervihnattamerkið að hann var mættur á Melrakkasléttu daginn eftir, þann 13. maí. Þar dvaldi Valli yfir varptímann eða þar til hann ákvað að vippa sér yfir í Húnaþing seinnihlutann í júlí. Þaðan hélt Valli til suðlægari slóða þann 1. ágúst. Fjórum dögum síðar var Valli kominn til Frakklands, nánar tiltekið á Bretagne skaga, þar sem hann dvaldi rúma viku, eða til 13. ágúst. Þaðan hélt Valli enn sunnar og þann 18. ágúst var hann í Marókkó. Síðasta staðsetning Valla er frá því á mánudag 22. ágúst. Þá var hann staddur í Máritaníu. Næst er að vænta merkis frá Valla á morgun, föstudaginn 26. ágúst.
Hægt er að fylgjast með ferðum Valla á heimasíðunni http://www.whimbrel.info/ og skorar Náttúrustofan á fuglaáhugamenn að kíkja reglulega eftir kappanum. Þar er m.a. hægt að sjá kort með upplýsingum hvar hann er á hverjum tíma. Svo er bara að finna hvar á Sléttunni Valli dúkkar upp næsta vor.
