Sníkjuvespa á Húsavík

Baldur Kristinsson kom með þessa pöddu til greiningar á Náttúrustofuna. Paddan reyndist vera sníkjuvespan Rhyssa persuasoria sem ekki hefur neitt íslenskt heiti. Þessi sníkjuvespa er afar stór, um 3,5 cm að lengd og með álíka langa varppípu sem gerir hana ógnvænlega að sjá. Hún er svört að lit með ljósa bletti á afturbol, langa fálmara og appelsínugula fætur. Tegundin er útbreidd í barrskógum Evrópu, Ameríku og Asíu.

Snikjuvespa

Lífsferill Rhyssa peruasoria er afar sérstakur. Kvenflugan leitar uppi lirfu trjávespu (Syrex noctilio) eða skyldra tegunda. Lirfur trjávespunnar lifa inni í trjám þar sem þær naga sér göng. Sníkjuvespan getur fundið staðsetningu lirfanna með lyktarskyni eða titringi sem verður við nag lirfanna. Með ótrúlegri nákvæmni borar sníkjuvespan varppípunni inn í viðinn með því að snúa henni í hálfhring fram og til baka á miklum hraða. Þegar varppípan er komin niður í holu lirfunnar verpir sníkjuvespan einu eggi á eða við lirfuna. Eggið klekst síðan og lirfa sníkjuvespunnar lifir á lirfu trjávespunnar. Lirfa sníkjuvespunnar lifir svo af veturinn inni í trénu og um vorið skríður fullvaxin sníkjuvespa út.

Snikjuvespa1

Trjávespurnar ráðast aðallega á veikburða tré en einnig á fullfrísk. Þær verpa eggjum inn undir börkinn en um leið smita þær tréð af sveppi. Sveppurinn drepur tréð smám saman en lirfan lifir fyrst og fremst á sveppinum. Trjávespur hafa víða valdið skaða í skógrækt sérstaklega þegar þær hafa borist til nýrra svæða þar sem náttúrulegir óvinir eru ekki fyrir hendi. Á fyrri hluta síðustu aldar barst þessi trjávesputegund til Nýja Sjálands og Ástralíu og olli miklum skaða á skógum þar. Til að sporna við þessari plágu var brugðið á það ráð að flytja inn tegundir sem lifa á trjávespunum í náttúrulegum heimkynnum þeirra. Tvær tegundir sníkjuvespa sem fluttar voru inn náðu að draga verulega úr sókn trjávespanna. Önnur þessara tegunda var Rhyssa persuasoria sem nú birtist á Húsavík. Þetta er dæmi um það sem kallað hefur verið lífræn vörn þar sem náttúrulegir óvinir eru látnir vinna á meindýri í stað þess að nota eitur. Í þessu tilviki náðist ekki viðunandi lausn fyrr en búið var að finna og flytja inn þráðorm sem er sníkill á trjávespum.

Þetta vekur upp vangaveltur um skógrækt með erlendum trjám á Íslandi. Víða er búið að planta sömu erlendu tegundinni í stór landsvæði. Tegund sem flutt var hingað til lands þar sem náttúrulegir óvinir eru ekki til. Ef óvart bærist til landsins óvinur viðkomandi trjátegundar úr hennar náttúrulegu heimkynnum þá gæti það valdið plágu sem erfitt gæti reynst að stoppa. Á fyrstu árum skógræktar á Íslandi var mikið plantað af skógarfuru sem er algengasta barrtré Norður-Evrópu. Um 1960 kom lúsafaraldur sem felldi megnið af skógarfurum landsins. Eftir þetta áfall snéru menn sér að öðrum barrtegundum en sú hætta er alltaf fyrir hendi að hingað berist tegundir sem ráðast á þær. Ræktun einnar tegundar á stórum svæðum eykur hættuna á svona faröldrum sérstaklega ef hún er erlend og tekin úr sínu náttúrulega vistkerfi.


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin