Skógarþrestir gera það gott

Skógarþröstur af íslensku deilitegundinni (Turdus iliacus coburni) sem verpur einnig í Færeyjum.  Redwing of the subspecies (Turdus iliacus coburni) that breeds in Iceland and Faroe Islands

Skógarþröstur (Turdus iliacus) er algengur spörfugl með norðlæga útbreiðslu í Norður Evrópu og Síberíu. Í Evrópu sveiflast stofninn á bilinu 16.200.000-28.100.000 fullorðnir einstaklinga en hann er þó talinn vera á niðurleið.[i] Staða þeirra var flokkuð sem viðkvæm á Evrópuválista 2015 [ii] en svo virðist sem dregið hafi úr fækkun þeirra á síðustu árum og voru þeir ekki lengur álitnir í hættu 2021.[i] Meirihluti stofnsins heldur til í Síberíu en staða þess stofns er óþekkt.[iii]

Íslenskir skógarþrestir tilheyra sér deilitegund (Turdus iliacus coburni) en þeir eru stærri og dekkri en aðrir skógarþrestir. Þeir eru að mestu farfuglar sem ferðast til vestur Evrópu á haustin, lítill en vaxandi hluti [iii] stofnsins heldur þó til á Íslandi veturlangt og þá fyrst og fremst á suðvesturhorni landsins. Hérlendis er þá helst að finna á láglendi um allt land og er áætluð stofnstærð þeirra, samkvæmt mati Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2017, um 165.000 pör.[i] Þeir halda helst til í skóg- eða kjarrlendi og lúpínu, í þéttbýli og á ræktuðu landi við sveitarbæi.

Skýrsla Náttúrustofu Norðausturlands um „Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023“ sem út kom í desember 2023 sýnir að þó fjöldi skógarþrasta sveiflist milli ára, þá fjölgaði þeim í Þingeyjarsýslum á tímabilinu 2014-2023 um 116%. Þróun stofnsins fyrir þann tíma var ekki þekkt.

Meðalfjöldi skógarþrasta á talningarpunktum 2014-2023, sýndur með staðalskekkju. – Mean number (±SE) of Redwings on monitoring points in 2014-2023.

Í Rangárvallasýslu hefur Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Suðurlandi fylgst með stofnstærðarbreytingum hjá m.a. skógarþröstum frá 2011-2023 og þar hefur þeim einnig fjölgað verulega.[i] Fjölgun skógarþrasta á sér því stað á Suðurlandi einnig og mjög líklega víðar um land.

Ástæður fækkunar í Evrópu eru ekki vel þekktar en þar sem um norðlæga varptegund er að ræða er ekki ólíklegt að fækkun tengst hlýnandi loftslagi. Ekki er vitað hvort fjölgun íslensku deilitegundarinnar sé landlæg þó vöktun úr Þingeyjarsýslum og af Suðurlandi benda til þess. Ekki er víst að þættir sunnar í Evrópu sem hafa neikvæð áhrif á stofnstærð skógarþrasta nái til íslenska stofnsins. Hugsanleg fjölgun í stofninum hérlendis mætti skýra með auknu fæðuframboði á vetrar- og/eða varpstöðvum og fjölgun hentugra varpsvæða. Aukinn gróður og runnamyndun í kjölfar minnkandi beitar og hlýnandi veðurfars eru líkleg til að hafa jákvæð áhrif á stofnstærð.[ii] Einnig má velta fyrir sér hvort framræsing votlendis upp úr miðri síðustu öld og skógrækt hafi haft jákvæð áhrif á fæðuframboð eða jafnvel á framboð hentugra varplenda. Hvort heldur sem er þá er ekki ólíklegt að fjölgun skógarþrasta hafi staðið yfir í mun lengri tíma heldur en athuganir Náttúrustofu Norðausturlands og Háskólaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi segja til um.

[i] BirdLife International (2021) European Red List of Birds,

[ii] NT; BirdLife International 2015

[iii] Heimasíðua Birdlife International: http://datazone.birdlife.org/species/factsheet/redwing-turdus-iliacus/text

[iv] Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf

[v] Fésbókarsíða Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi: (https://www.facebook.com/photo/?fbid=767730865149470&set=a.574525587803333)

[vi] Sigurður Björn Alfreðsson, 2018, The effects of shrub encroachment on avian communities in lowland Iceland, Master’s thesis, Faculty of Life and Environmental studies, University of Iceland, pp. 56.

WordPress Image Lightbox Plugin