Skógarmítill finnst á hundi á Húsavík

Fyrir um það bil þremur vikum kom Vignir Sigurólason dýralæknir til okkar hér á Náttúrustofu Norðausturlands með skógarmítil sem hann hafði fundið á hundi.

Skógarmítill (Ixodes ricinus) hefur fundist af og til á Íslandi á síðustu árum en fyrstu heimildir af veru hans hér eru frá árinu 1967. Á allra síðustu árum hefur fundarstöðum hans fjölgað og er jafnvel talið að hann sé orðinn landlægur á Íslandi. Hlýnandi loftslag og aukin útbreiðsla skóga hefur fært útbreiðslusvæði hans norðar í Evrópu. Samkvæmt heimildum Náttúrustofu Norðausturlands er hér um að ræða fyrsta tilfellið þar sem skógarmítill finnst á Norðausturlandi.

Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum og getur hann borið smit milli spendýra og fugla. Getur hann verið varasamur þar sem hann meðal annars getur borið bakteríuna Borrelia burgdorferi sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum sem er alvarlegur taugasjúkdómur. Bakterían berst í menn eftir bit skógarmítilsins. Skógarmítill heldur sig í gróðri, einkum á skógarbotni en dýrin í skóginum, spendýr og fuglar sjá mítlinum fyrir blóði. Þegar hann vantar blóð þá krækir hann sig á fórnarlambið sem á leið um skóginn. Á vef heilbrigðisráðuneytisins segir að þar sem skógarmítill er landlægur er fólk vant því að leita að honum á líkama sínum eftir dvöl í skógi eða graslendi. Ef hann er tekinn af húðinni innan við sólarhring eftir að hann nær að festa sig er hann talinn hættulaus þar sem bakterían sem veldur Lyme-sjúkdómi í mönnum kemst ekki í blóðrás hýsilsins nema mítillinn sjúgi blóð mjög lengi.

Skogarmitill

Skógarmítill hefur borist til Íslands með farfuglum en einnig eru dæmi um að hann hafi borist með fólki frá útlöndum og jafnvel hundum ef eftirlit hefur ekki verið nægjanlegt. Á Íslandi hefur hann einkum fundist á mönnum og hundum, t.d. eftir útivist í skógum en einnig fuglum, sauðfé og hreindýrum.

Æviskeið skógarmítils eru þrjú. Eftir að hann klekst úr eggi verður hann sexfætt lirfa sem liggur í dvala yfir vetur. Að vori skríður lirfan upp eftir gróðri og sætir færis á að ná til hýsils til að sjúga blóð. Ef allt tekst vel til er skipt um ham síðsumars og verður mítillinn þá áttfætt ungviði sem aftur leggst í dvala yfir veturinn. Að vori tekur hann upp sama háttarlag og breytist í fullorðinn mítil eftir heppnaða blóðmáltíð, leggst í dvala enn einn veturinn og endurtekur leikinn að vori. Karlinn drepst svo en kvendýrið verpir eggjum áður en það fylgir maka sínum. Fullorðnir mítlar eru 0,5-1,1 cm að lengd en ungviðið er miklu smærra. Fullorðinn mítill er mjög þaninn eftir blóðmáltíð og nær því að vera einsog kaffibaun að stærð.

skogarmitill1

Þekkt er önnur tegund mítla, svokölluð lundalús (Ixodes uriae). Lundalúsin finnst í sjófuglum hér á landi. Hefur verið sýnt fram á að í þeim finnast bakteríur af ættinni Borrelia. Ekki hefur verið sýnt fram á að lundaveiðimenn hafi sýkst af völdum Borrelia þótt þeir hafi verið bitnir af lundalús.
Frekari upplýsingar um skógarmítil má sjá á vef Náttúrufræðistofnunar www.ni.is og vef Landlæknisembættisins www.landlaeknir.is.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin