Sjófuglarannsóknir í Mánáreyjum

Á miðvikudaginn í síðustu viku fór Náttúrustofan í rannsóknaleiðangur út í Mánáreyjar. Í leiðangrinum voru, ásamt Þorkeli Lindberg og Björgvini Friðbjarnarsyni frá Náttúrustofunni, Ævar Petersen frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Magnús Magnússon kvikmyndagerðarmaður. Tilgangur leiðangursins var að meta varp sjófugla í Mánáreyjum ásamt því sem Magnús ætlaði að taka myndir. Fuglalíf í Mánáreyjum var kortlagt á tímabilinu 1981-1984 og var það Ævar Petersen sem stóð fyrir þeirri athugun. Því var áhugavert að kanna nú hvaða breytingar höfðu orðið á þessum rúmu 20 árum sem liðin eru.

Lagt var af stað að morgni miðvikudags með hvalaskoðunarbátnum Aþenu og var það Aðalsteinn Ólafsson sem var skipstjóri. Lítill plastbátur var dreginn aftan í Aþenu og notaður til að ferja menn og búnað yfir í Lágey en lagt var upp að vesturhlið hennar, þar sem er stigi upp í eyna. Hafðist leiðangurinn við í kofa sem smíðaður er af lundaveiðimönnum frá Sauðárkróki sem nýtt hafa eyjuna til lundaveiða undanfarin ár. Dvalið var í eyjunni fram á fimmtudagskvöld en þá var haldið heim á leið vegna slæms veðurútlits.

Manareyjar
Að vestanverðu er stigi upp í Lágey. Björgvin er hér að bera upp búnað
Manareyjar2
Kofi lundaveiðimanna í Lágey er líka neyðarskýli. Kofinn var hífður upp í eyna af þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, árið 1997. Hér eru leiðangursmennirnir (talið frá hægri) Ævar, Magnús og Björgvin.

Niðurstöður leiðangursins verða birtar síðar en í grófum dráttum voru þær eftirfarandi: Miklar breytingar hafa orðið á lundavarpinu vegna mikilla breytinga á gróðurfari. Fyrir um 20 árum var gróðursnautt belti við brúnir eyjunnar, þar fyrir innan var skarfakálsbelti og innst voru grasmóar. Skarfakál þekur nú eyjuna nær alveg og fundust engar aðrar háplöntur. Gras var alveg horfið og þar sem áður var gróðursnautt var nú skarfakálið búið að koma sér fyrir. Ekki er búið að taka saman gögn til að leggja mat á stærð lundavarpsins en lundaholur voru taldar til þess að meta fjölda varppara. Taldar voru holur innan 4 m hrings með fyrirfram ákveðnu millibili og náði rannsóknarsvæðið yfir allt lundavarpið. Teistur voru taldar hliðstætt því sem gert var fyrir um 20 árum og virðist sem þeim hafi fækkað töluvert. Fjórar fuglategundir sáust og/eða heyrðust í Mánáreyjum nú sem ekki hafa sést þar áður svo vitað sé til. Þetta voru fjallkjói, sandlóa, steindepill og þúfutittlingur.

Vegna veðurs gafst ekki færi á að meta varp bjargfugla né fara yfir í Háey til að kanna varp sjófugla þar. Bjargfuglavarp þótti líka of stutt á veg komið hjá sumum tegundum til að hægt væri að leggja mat á það.

Manareyjar3
Séð suður eftir Lágey frá stiganum, Háey í baksýn. Skarfakál er mjög útbreitt alveg út á brúnir.

Náttúrustofan vill koma á framfæri sérstökum þökkum til Gentle Giants fyrir skutlið til og frá Lágey, landeigenda á Mánárbakka fyrir leyfi til að fara í eyjurnar og einnig til sauðkrækskra lundaveiðimanna fyrir afnot af kofanum.

Manareyjar3
Það er gott að vera lundi í Lágey

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin