Sjófuglarannsóknir enn í brennidepli

Nýverið komu út tvær greinar um íslenskar langvíur og stuttnefjur þar sem fæðuvistfræði tegundanna var könnuð við mismunandi umhverfisaðstæður umhverfis landið, annars vegar í tímaritinu Ambio og hins vegar Scientific Reports. Greinarnar eru afrakstur LOMVIA rannsóknaverkefnisins sem Náttúrustofan er aðili að og er unnið undir forystu Dr. Norman Ratcliffe hjá British Antarctic Survey og Dr. Thomas Larsen hjá Max Planck Institute.

  1. Cold comfort: Arctic seabirds find refugia from climate change and potential competition in marginal ice zones and fjords, eftir Anne-Sophie Bonnet-Lebrun o.fl. Ferðir varpfugla og mikilvæg fæðuöflunarsvæði þeirra voru kortlögð með GPS staðsetningartækjum sem á þá voru sett í nokkrum byggðum hér á landi. Þá voru einnig greindar stöðugar samsætur niturs og kolefnis úr blóði fuglanna til að fá upplýsingar um fæðu og fæðuöflunarsvæði. Niðurstöður sýna m.a. að kaldir hafstraumar og kaldir firðir virðast stuttnefjum sérlega mikilvæg fæðuöflunarsvæði og áframhaldandi hlýnun loftslags er líkleg til að valda enn meiri fækkun stuttnefju hér á landi.
  2. Effects of competitive pressure and habitat heterogeneity on niche partitioning between Arctic and boreal congeners, eftir Anne-Sophie Bonnet-Lebrun o.fl. Sjónum er beint að sambýli norðlægrar (stuttnefja) og suðlægari, ríkjandi (langvía) tegundar með því að skoða samkeppni og búsvæðanotkun þessara tveggja svartfugla í tveimur misstórum sjófuglabyggðum, Látrabjargi og Grímsey. Niðurstöður sýndu m.a. fram á að stuttnefjur í Látrabjargi leituðu bjarga í búsvæðum sem langvíur notuðu síður, svokölluðum búsvæða afdrepum (e. habitat refugia), við ísröndina í Grænlandssundi annars vegar og hins vegar Arnarfjörð. Við Grímsey nýttu tegundirnar sambærilegt búsvæði en þó varð vart við nokkurn aðskilnað í notkun þess, bæði í tíma og rúmi. Rannsóknin sýnir m.a. fram á mikilvægi afdrepa til fæðuöflunar, þar sem samkeppni er mikil milli tegunda.

Stuttnefja með dýptarmæli (e. time depth recorder) á bringunni.
Norman Ratcliffe við veiðar á Fonti, Þorkell Lindberg Þórarinsson fylgist með.

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin