Silkitoppur á ferðinni

Dágóður hópur af silkitoppum (Bombycilla garrulus) heldur nú til á Húsavík en Gaukur Hjartarson tilkynnti um 21 fugl í garði sínum þann 22. október. Þær sáust svo aftur í dag, 25. október, við Uppsalaveg og taldi hópurinn nú 27 fugla! Þetta er mesti fjöldi sem frést hefur af á landinu nú í haust en fyrstu silkitoppur haustsins voru stakir fuglar á tveimur stöðum við Hornafjörð 15. október síðastliðinn. Síðan þá hefur frést af toppum með suðurströndinni vestur í Fljótshlíð og Vestmannaeyjum og með norðurströndinni vestur í Eyjafjörð.

Silkitoppur eru auðþekktir fuglar sem verpa í barrskógabeltinu frá norðaustanverðri Evrópu austur um Rússland sem og í norðanverðri Norður-Ameríku. Fuglar frá Evrópu og Rússlandi leggjast gjarnan á flakk í vesturátt þegar lítið er um æti á þeirra heimaslóðum, og berast þá gjarnan til okkar í mismiklu magni. Það verður fróðlegt að fylgjast með ferðum þeirra í haust og hversu margar munu berast hingað. Þær eru miklar berjaætur og sækja gjarnan í reyniber en auk þess má laða þær að með að setja út epli og vínber í garða. Eplin má gjarnan skera í helminga og stinga á greinum í trjám og runnum.

Náttúrustofan hvetur áhugafólk til að senda sér tilkynningar um silkitoppur á yann@nna.is eða í síma 464 5100 !

Silkitoppa
Silkitoppa á Húsavík, 25. október 2012

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin