Niðurstöður rannsókna Náttúrustofunnar og samstarfsaðila á dreifingu og svæðanotkun þriggja svartfuglategunda utan varptímans voru nýverið birtar í tímaritinu Polar Biology. Rannsóknirnar, sem byggðu á notkun dægurrita sem afla upplýsinga um staðsetningu fuglanna, fóru fram í þremur stórum sjófuglabyggðum hér á landi: Látrabjargi, Grímsey og á Langanesi. Niðurstöðurnar benda til þess að stærstur hluti íslenska stuttnefjustofnsins, sem hefur átt mjög undir högg að sækja hér á landi undanfarna áratugi og minnkar stöðugt, haldi sig að miklu leyti annars staðar en langvíur og álkur.
Stuttnefjur dvöldust að mestu leyti við SV-Grænland utan varptímans. Stærstur hluti íslensku stuttnefjanna hélt suður og vestur fyrir Grænland strax að loknu varpi, þar sem fuglarnir felldu flugfjaðrir og dvöldu svo yfir háveturinn, fram í febrúar þegar fyrstu fuglarnir snéru til baka til Íslands. Stuttnefjur úr Grímsey og frá Langanesi héldu norður í Íslandshaf að loknu varpi, á svæði austur af Grænlandi þar sem ekki var vitað að íslenskar stuttnefjur héldu sig.
Langvíur héldu sig norðan Íslands og vestan Grænlandssunds að loknu varpi og fram á haust. Þegar leið á haustið fór hluti þeirra sem héldu sig vestan Grænlandssunds suður með landgrunni A-Grænlands og suður á Reykjaneshrygg þar sem þær dvöldu yfir háveturinn. Aðrar héldu sig aðallega á íslenska landgrunninu yfir háveturinn, mest norðan lands.
Álkur héldu sig nær alfarið á landgrunninu við Ísland, bæði að haustinu og yfir háveturinn. Mest nýttu þær svæði fyrir norðan og austan land. Ein álka frá Langanesi hélt þó yfir í Norðursjó.
Niðurstöður rannsóknanna, sem styrktar voru af Veiðikortasjóði, bæta umtalsvert við fyrirliggjandi þekkingu á dreifingu og svæðanotkun þessara tegunda utan varptímans, sem fram að þessu höfðu takmarkast við endurheimtur á merktum fuglum.
Lesa má greinina í heild sinni, skoða myndir af dreifingu fuglanna o.fl. með því að heimsækja eftirfarandi vefslóð útgefandans:
https://link.springer.com/article/10.1007/s00300-018-2334-1
Áður hefur verið fjallað stuttlega um þessar rannsóknir hér á heimasíðunni og í fjölmiðlum: sjá hér, hér og hér.
