Samið um rannsóknir og vöktun Rannsóknastöðvarinnar Rifs til fimm ára

Þriðjudaginn 22. júní s.l. var skrifað undir samning um rekstur Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn, sjá frétt á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands. Að samningnum standa Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, sveitarfélagið Norðurþing og Náttúrustofa Norðausturlands en markmið hans er að stuðla að auknum rannsóknum, vöktun og fræðslu á starfssvæði náttúrustofunnar í samræmi við tilgang og markmið Rannsóknastöðvarinnar Rifs.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Aðalsteinn Örn Snæþórsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands skrifa undir samning um Rannsóknastöðina Rif. Þess ber að geta að þeir eru allir menntaðir líffræðingar í grunninn.

Rannsóknastöðin Rif var stofnuð árið 2014 en hlutverk hennar er að efla og auka náttúrurannsóknir á Melrakkasléttu, m.a. með hliðsjón af skuldbindingum Íslands í norðurslóðasamstarfi. Einnig er hlutverk hennar að safna saman og miðla upplýsingum um náttúrufar á svæðinu og styðja nærsamfélagið með fræðslu og stuðningi við náttúrutengda ferðamennsku.

Á þessum tímamótum er einnig ánægjulegt að segja frá því að í vor réð Rannsóknastöðin Rif líffræðinginn Pedro Rodrigues í stöðu forstöðumanns stöðvarinnar. Pedro er portúgalskur að uppruna og hefur búið og stundað rannsóknir meðal annars í Portúgal, Chile og á Íslandi en hann vann um tíma við Náttúrustofu Suðvesturlands. Hann er með doktorspróf í líffræði frá háskólanum á Asoreyjum og hefur áralanga reynslu af rannsóknum, kennslu og ýmsum störfum á sviði náttúruvísinda. Það er einkar ánægjulegt að fá svona öflugan vísindamann til starfa á svæðið og hlakkar Náttúrustofan til samstarfsins og frekari uppbyggingar rannsóknastöðvarinnar.

Pedro Rodrigues, nýráðinn forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar Rifs á Raufarhöfn.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin