Föstudaginn 24. nóvember hafði lögreglan samband við Náttúrustofuna vegna fálka sem rjúpnaskyttur höfðu fundið særðan við Bangastaði á Tjörnesi. Fálkinn reyndist vængbrotinn og var ákveðið í samráði við Ólaf K. Nielsen fálkasérfræðing að senda hann suður til frekari skoðunar. Á móti honum tóku starfsmenn Húsdýragarðsins sem komu honum í hendur dýralæknis. Við röntgenmyndatöku kom í ljós að fálkinn hafði verið skotinn. Aðgerð var gerð á honum sem leiddi í ljós að brotið var það slæmt að engin von var um bata. Var fuglinum því lógað. Fálkinn reyndist vera ungur kvenfugl sem merktur var í Mývatnssveit í júní síðast liðnum.
Eins og fjallað var um í frétt hér á heimasíðu Náttúrustofunnar þann fannst særður fálki á Húsavík um svipað leyti í fyrra. Sá fálki var líka sendur suður til nánari skoðunar og kom í ljós að hann hafði verið skotinn. Þetta er því í annað sinn á u.þ.b. ári sem staðfest er að fálki hefur verið skotinn í Þingeyjarsýslum. Það er afar dapurlegt til þess að vita að einhverjir menn sjá sig knúna til viðlíka verka. Það er ekki nóg að þessir menn láti í ljós innræti sitt með þessum hætti heldur koma þeir um leið óorði á skotveiðimenn í Þingeyjarsýslum.