Undanfarnar vikur hefur Náttúrustofan kafað djúpt í sorp Þingeyinga við gerð matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar sorpbrennslu sunnan Húsavíkur. Matsskýrslan er nú til athugunar hjá Skipulagsstofnun.
Matsskýrslan sem unnin var fyrir Sorpsamlag Þingeyinga fjallar um fyrirhugaða móttöku-, flokkunar-, og förgunarstöð úrgangs á Húsavík með brennslu- og orkunýtingarkerfi.
Allt frá því að brennsla var stöðvuð í gömlu sorpbrennslunni þann 20. ágúst 2002 hefur staðið yfir ítarleg athugun á því hvernig best verði staðið að framtíðarlausn sorpmála á starfssvæði Sorpsamlags Þingeyinga. Margar lausnir hafa verið skoðaðar en ákvörðun var tekin um að reisa sorpbrennslu og nýta þá varmaorku sem losnar úr læðingi við brennsluna til raforkuframleiðslu í orkustöð Orkuveitu Húsavíkur.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdinni verði skipt í tvo áfanga þar sem miðað er við að stöðin geti tekið á móti 8.000 tonnum á ári við áfanga 1 og 16. tonnum á ári við áfanga 2.
Samkvæmt útreikningum kemur loftmengun af völdum framkvæmdarinnar til með að vera langt innan löglegra viðmiðunarmarka. Áhrif á náttúrufar og menningarminjar eru talin lítil en nokkur sjónræn áhrif verða þar sem mannvirkin koma til með að sjást vel frá þjóðvegi.
Reiknað er með að athugun matsskýrslu verði lokið í júlí og að framkvæmdir hefjist um sama leyti. Framkvæmdum á að vera lokið í desember 2005 og gert er ráð fyrir að starfsemi hefjist í janúar 2006.
