Náttúrufræðistofnun Íslands hefur staðið fyrir rannsóknum og vöktun á rjúpnastofninum undan farin ár. Markmið þessara rannsókna er að fá fram gott mat á ástandi rjúpnastofnsins fyrir skotveiðitíma og eins að auka skilning á þeim þáttum sem hafa áhrif á stofnstærð og stofnsveiflur rjúpunnar. Rannsóknirnar hafa farið fram um allt land en mest þó í Þingeyjarsýslum og á suðvesturhorninu. Náttúrustofan hefur tekið virkan þátt í rannsóknunum sem verið hafa í Þingeyjarsýslum s.s. með talningu á körrum að vori, ungatalningum og merkingum síðsumars og rannsóknum á heilbrigði rjúpunnar á haustin.
Til að auka skilning enn frekar á afföllum rjúpna var ákveðið að setja senditæki á nokkrar rjúpur hér norðan heiða í ár. Þetta er tilraunaverkefni til að athuga hvort þessi tækni sé raunhæfur kostur í rjúpnarannsóknum. Í vor voru sett voru lítil senditæki á 7 karra og á 6 hænur nú seinnipart sumars. Senditækin eru hengd um háls rjúpnanna þannig að þau falli inn undir fiðurhaminn. Frá þeim liggur svo loftnet aftur með bakinu. Þessi senditæki senda frá sér útvarpsbylgjur sem hægt er að nema með sérstöku móttökutæki. Náttúrustofan sér um að fylgjast með rjúpunum reglulega, athuga staðsetningu og hvort þær eru lífs eða liðnar. Ef þær eru dauðar er reynt að greina dánarorsök.
Rjúpurnar sem fengu senditæki eru staðsettar á Tjörnesi, frá Ísólfsstöðum að Sandhólum. Karrarnir hafa verið mjög staðbundnir og haldið til innan síns óðals í allt sumar. Hænurnar hafa ekki heldur farið langt en stutt er síðan þær fengu sendi. Einn karri var drepinn af fálka fljótlega eftir að hann fékk sendinn. Annar missti sendinn sinn þar sem festing slitnaði. Það eru því 5 karrar og 6 hænur eftir með senditæki á Tjörnesi.

Eins og er þá bera þessar merkis rjúpur engin nöfn aðeins tíðninúmer en til stendur að nefna þær. Við á Náttúrustofunni viljum hvetja fólk til að koma með tillögur að nöfnum á rjúpurnar. Tillögur skal senda á netfangið alli@nna.is. Upplýsingar um einstakar rjúpur eru hér að neðan.
Karrar
151.226 – ungur karri (klaktist 2007), merktur við Syðri-Sandhóla 23. maí 2008. Hefur haldið sig að mestu í dokk austan bæjarins en laumast við og við í fóðurkálið. Hann fannst ekki við leit í gær (27. ágúst) en frekari leit er fyrirhuguð á morgun.
150.870 – fullorðinn karri (klaktist fyrir árið 2007), merktur skammt frá þjóðvegi rétt austan Sandhólaafleggjara 23. maí 2008. Hefur haldið sig á því svæði, ýmist norðan eða sunnan þjóðvegar. Var í gær kominn skammt vestan við Syðri-Sandhóla að heilsa upp á hænu með unga.
151.580 – ungur karri (klaktist árið 2007), merktur við afleggjara að Ísólfsstöðum 24.maí 2008. Hefur verið á því svæði, bæði norðan og sunnan þjóðvegar en einnig brugðið sér í átt að bænum og var einu sinni við Sólvang.
150.779 – ungur karri (klaktist árið 2007), merktur skammt norðan við malargryfjur í landi Ísólfsstaða 24. maí 2008. Hefur haldið sig á sama stað.
151.417 – ungur karri (klaktist árið 2007), merktur skammt frá karra 150.779 en heldur sig við þjóðvegin og er ýmist norðan eða sunnan hans.
Hænur
151.058 – hæna, aldur óviss. Merkt við afleggjara að Ketilstöðum 8. ágúst 2008. Hefur verið að færa sig í vesturátt og var í gær (27. ágúst) í mýrinni milli Hóls og Mýrarkots.
151.980 – hæna, aldur óviss. Merkt vestan við Ketilstaði 8. ágúst 2008. Hefur haldið sig í nágrenni Ketilstaða síðan þá.
151.810 – ung hæna (klaktist árið 2007). Merkt við afleggjarann að Mýrarkoti, nálægt þjóðveginum 8. ágúst 2008. Var við Ketilstaði í síðustu viku en sendirinn virðist bilaður þar sem merki frá honum greinist varla. Fannst ekki í gær (27. ágúst).
151.089 – ung hæna (klaktist árið 2007). Merkt við Mýrarkot 9. ágúst 2008. Hefur fært sig yfir í mýrarnar norðan Hóls.
151.046 – ung hæna (klaktist árið 2007). Merkt við Mýrarkot 9. ágúst 2008. Hefur haldið sig á svipuðum slóðum.
151.862 – ung hæna (klaktist árið 2007). Merkt við Mýrarkot 9. ágúst 2008. Hefur haldið sig á svipuðum slóðum.