Rjúpa með senditæki skotin

Náttúrustofa Norðausturlands hóf rannsókn á varpárangri og sumarafföllum rjúpna í Þingeyjarsýslu í vor. Rannsóknin fer þannig fram að um vorið eru kvenfuglar veiddir og á þá sett senditæki. Athugað er svo með rjúpurnar einu sinni í viku allt sumarið og ef um vanhöld er að ræða þá er reynt að greina orsökina.
Í sumar var sendir settur á 51 rjúpu og þeim fylgt eftir yfir sumarið en um haustið var reynt að ná þeim aftur til að taka af þeim sendana. Það gekk þó ekki nógu vel og voru 28 rjúpur enn með sendi þegar þær hurfu af svæðinu til vetrarstöðva. Ein af þessum rjúpum var svo skotin 8. nóvember s.l. og verður rakin saga hennar hér.
Þessi rjúpa var veidd í net þann 18. maí s.l. við Hallbjarnarstaði á Tjörnesi. Rjúpan var merkt og mæld og á hana sett senditæki. Þetta var kvenfugl sem hafði skriðið úr eggi í fyrra (2008). Allt sumarið hélt hún til í nágrenni Hallbjarnarstaða og valdi sér varpstað undir litlu grenitré. Hreiðrið var svo vel falið að ekki sást í það nema með því að lyfta upp neðstu greinum grenitrésins. Rjúpan verpti 9 eggjum og klöktust þau öll. Hún var svo allt sumarið í innan við 100 metra fjarlægð frá hreiðurstað með ungana sem allir komust á legg. Upp úr miðjum ágúst fóru ungarnir að hverfa frá henni en það síðasta sem sást til hennar var þann 8. september þegar reynt var að veiða hana til að taka sendinn af. Hún var þá í félagsskap karra og reyndist of stygg til að hægt væri að ná henni. Flogið var yfir svæðið með móttökutækið seinni part september en ekkert varð vart við hana.
Rjúpan endaði svo líf sitt á Grenivíkurfjalli þann 8. nóvember en hún féll fyrir hendi veiðimanns. Þá var hún komin 46 km frá varpstað.
Náttúrustofan vill hvetja menn sem veiða merktar rjúpur að koma merkjunum til skila. Merkjum ásamt upplýsingum um fugla skal skila til Náttúrufræðistofnunar Íslands en Náttúrustofa tekur líka við merkjum og kemur áleiðis óski menn þess.

Rjupa-skotin
Mynd af rjúpunni fáum dögum fyrir klak.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin