Rituvarp í Þingeyjarsýslum sumarið 2022

Árlega er fylgst með tveimur ritubyggðum í Þingeyjarsýslum, í Skeglubjargi við Skjálfanda og Skoruvíkurbjargi á Langanesi. Vörpin eru heimsótt tvisvar á varptímanum. Í fyrra heimsókn seinnipartinn í júní eru ljósmyndir teknar af föstum sniðum í björgunum. Af þeim eru rituhreiður talin á sniðunum og fást þannig upplýsingar um breytingar á fjölda fugla í varpi milli ára. U.þ.b. mánuði síðar er varpið heimsótt aftur til að meta varpárangur en þá er fjöldi unga innan sömu sniða talinn á staðnum. Fjöldi unga sem sást í seinni heimsókn er borinn saman við hreiðurfjöldann og þannig fæst mat á varpárangur tegundarinnar, þ.e. meðalfjöldi unga sem kemst á legg í hverju hreiðri.

Sumarið 2022 virðist varp hafa gengið nokkuð vel í báðum björgum. Á þeim 6 sniðum sem fylgst er með í Skeglubjargi voru talin 223 hreiður þann 25. júní og loks sáust 178 ungar á lífi þann 22. júlí. Varpárangur er því um 0,82 ungar á hreiður að meðaltali. Sumarið 2017 komust flestir ungar á legg í Skeglubjargi, eða 239 talsins úr 190 hreiðrum (um 1,26 ungar á hreiður að meðaltali).

Í Skoruvíkurbjargi hefur verið fylgst með varpárangri rita frá sumrinu 2006. Sömu aðferðum er beitt og lýst var hér að ofan. Rituhreiður eru talin af 21 sniði í bjarginu. Fjöldinn á hverju sniði er mismikill, frá 0 upp í 110 hreiður þar sem mest var sumarið 2022. Áður mátti finna ritur á öllum af þessum 21 sniði en samhliða langtímafækkun í bjarginu hafa ritur horfið af þremur þessara sniða; þær hurfu af sniði nr. 1 árið 2012, nr. 6 árið 2013 og nr. 5 árið 2017. Enn er þó fylgst með þessum sniðum ef ske kynni að þróunin snúist við í framtíðinni. Þann 26. júlí 2022 voru taldir 547 rituungar af 11 sniðum í bjarginu, en ekki eru ungar taldir af öllum sniðum í ungatalningunni. Varpárangur sumarið 2022 er því um 0,87 ungar á hreiður að meðaltali, sem er ekki ósvipað stöðunni í Skeglubjörgum. Er hér þó um heldur lakari varpárangur að ræða samanborið við árin 2019-2021 þar sem hann var á bilinu 1,09-1,41 ungar á hreiður.

Rita með hreiðurefni – NNA/Yann Kolbeinsson
WordPress Image Lightbox Plugin