Í vetrarfuglatalningu á Melrakkasléttu þann 22. janúar síðastliðinn rakst starfsmaður Náttúrustofunnar á rannsóknadufl sem hafði skolað á land skammt frá Rifi. Tilkynnt var um fundinn til Landhelgisgæslunnar sem tók þá ákvörðun að kanna duflið við fyrsta tækifæri, en í sumum tilfellum getur stafað sprengihætta af slíkum duflum.
Ekki grunaði starfsmann Náttúrustofunnar að „brotajárn“ sem hann gekk framhjá, skammt frá rannsóknaduflinu, myndi vekja enn meiri athygli gæslunnar en „brotajárnið“ reyndist vera breskt tundurdufl. Í því var 100-150 kg hleðsla og geta slík dufl verið stórhættuleg þrátt fyrir að hafa legið óhreyfð í áratugi. Sprengjusérfræðingar LHG ákváðu að eyða duflinu á staðnum, en myndskeið af því má sjá á facebook síðu Landhelgisgæslunnar.
