Rannsóknir á rjúpu

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hóf Náttúrustofa Norðausturlands rannsókn á varpárangri og sumarafföllum rjúpna í Þingeyjarsýslum vorið 2009. Rannsókninni verður fram haldið í sumar en hún fer þannig fram að um vorið eru kvenfuglar veiddir og á þá sett senditæki. Athugað er svo með rjúpurnar einu sinni í viku allt sumarið og ef um vanhöld er að ræða þá er reynt að greina orsökina.
Síðastliðið vor var settur sendir á 51 rjúpu og þeim fylgt eftir yfir sumarið. Í vor er stefnt að því að setja senditæki á um 40 fugla og fylgja þeim eftir í sumar.

rjupurannsoknir

Aðal rannsóknasvæðið er á Tjörnesi en þar er þéttleiki rjúpna mikill. Rjúpurnar eru veiddar í net sem tveir einstaklingar strekkja á milli sín. Þriðji aðilinn leiðbeinir þeim um nákvæma staðsetningu fuglsins svo að netið missi ekki marks en það er lagt yfir rjúpuna. Talsverða lagni og þolinmæði þarf til svo allt gangi upp en fyrst á vorin eru rjúpurnar fremur styggar og varar um sig. Þegar líður á vorið og nær dregur varpi spekjast fuglarnir, sérstaklega ef heitt er í veðri , og gengur veiðin þá betur. Áður en varp hefst er veiði hætt.

Hver rjúpa sem veiðist er aldursgreind, vigtuð og vængur og haus eru mæld. Þá fær rjúpan fótmerki og að lokum senditæki áður en henni er sleppt.

rjupurannsoknir2

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin