Náttúrustofa Norðausturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands bjóða upp á fyrirlestur um rannsóknir á heilbrigði rjúpunnar. Fyrirlesari er Ólafur K. Nielsen hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Í fyrirlestrinum mun Ólafur fjalla um stofnbreytingar rjúpu og hvaða þættir hafa þar áhrif. Sérstaklega verður fjallað um niðurstöður rannsókna á heilbrigði rjúpunnar og hvernig heilbrigðisþættir grípa inn í stofnbreytingar. Verkefnið er unnið á Norðausturlandi og hófst árið 2006 og því er ætlað að standa til 2017. Í þessum rannsóknum eru til skoðunar ýmsir þættir sem tengjast heilbrigði s.s. líkamsástand, sníkjudýrabyrði, meinafræði, fæða o.s.frv. Til rannsóknanna er safnað 100 rjúpum í fyrstu viku október ár hvert. Fræðimenn við Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands, Náttúrustofu Norðausturlands og Háskólann á Heiðmörk í Noregi hafa tekið þátt í rannsóknunum.
Fyrirlesturinn verður haldinn í sal Framsýnar, Garðarsbraut 26 á Húsavík, þriðjudaginn 8. mars n.k. kl. 20:00. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.