Rannsóknir á áhrifum vindmylla á fugla

Náttúrustofa Norðausturlands rannsakar fuglalíf á þremur svæðum á landinu þar sem fyrirhugað er að reisa vindorkuver. Náttúrustofan vann áður við sambærilegar rannsóknir þegar áhrif Búrfellslundar á fuglalíf voru metin. Rannsóknirnar beinast að varpfuglum á viðkomandi svæðum og kortlagningu á ferðum farfugla og umferð annarra fugla um svæðin.

Erlendar rannsóknir sýna að helstu neikvæðu áhrif vindorkuvera á fugla megi skipta í fjóra flokka; áflug, fælingu, hindrun og búsvæðamissi. Fuglar geta lent í árekstri við vindmyllur eða mannvirki þeim tengd en auk beinna árekstra geta fuglar drepist við að kastast til jarðar eftir að hafa flogið inn í vindsveipi frá spöðum vindmylla. Fæling er það þegar fuglar forðast vindorkuverin og nota svæðið þá í minna mæli en áður sér til viðurværis. Getur það bæði stafað af vindmyllunum sjálfum sem og þeirri umferð og athöfnum sem fylgir þeim. Vindorkuver sem staðsett eru á farleiðum fugla eða eru á milli fæðu- og varpstöðva geta haft slæm áhrif á afkomu þeirra þar sem aukna orku þarf til að sneiða hjá orkuverunum, sérstaklega ef þau eru stór eða loka mikilvægum flugleiðum. Þó hver vindmylla taki ekki mikið pláss fylgja mörgum vindmyllum vegir og fleiri mannvirki sem samanlagt taka yfir talsvert svæði sem ekki stendur fuglum þá til boða sér til viðurværis.

Rannsóknir á farfuglum og umferð annarra fugla fela í sér öflun upplýsinga um hvaða tegundir fara um svæðið, hvaða leiðir þær nota, fjölda fugla og flughæð. Þessar uppslýsingar eru síðan nýttar í að meta áflugshættu. Til að ná þessu fram er notast við ratsjá og sjónauka sem geta bæði mælt fjarlægð og flughæð.

Rannsóknir á varpfuglum fela í sér að greina hvaða tegundir verpa á svæðinu og í hvað miklum mæli. Fuglar eru taldir á fyrirfram ákveðnum punktum, jafndreifðum um svæðið, til að meta þéttleika varpfugla. Einnig er fuglalíf vatna, tjarna og áa skoðað sérstaklega ef um slíkt er að ræða á viðkomandi svæði.

Rannsóknirnar eru unnar í nánu samstarfi við Háskólann í Árósum sem hefur yfir að ráða mikilli reynslu og þekkingu á að meta áhrif vindmylla á fuglalíf.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin