Óvenjulegur fjöldi flækingsfugla

Í kjölfar mikilla norðvestanvinda í fyrrinótt virðast sveitir á Norður- og Norðausturlandi hafa fyllst af flækingsfuglum. Fréttir hafa borist af fuglum úr Fljótum í vestri austur í Öxarfjörð. Strax í gærmorgun sáust óvenjumargir flækingsfuglar við Víkingavatn í Kelduhverfi en það varð til þess að starfsmaður Náttúrustofunnar fór ásamt Gauki Hjartarsyni á Tjörnes þar sem þeir fundu einnig marga erlenda gesti. Margir flækingar sáust einnig á Siglufirði. Líklegast eru flækingar mun víðar á ferðinni en frést hefur af.

Í gær, 3. nóvember, fundust því samtals 3 skógarsnípur, 25 silkitoppur, 15 glóbrystingar, um 50 svartþrestir, tæplega 100 gráþrestir, 8 söngþrestir, 6 hettusöngvarar, 15 gransöngvarar, 4 fjallafinkur og 1 barrfinka – á svæðinu frá Fljótunum austur í Kelduhverfi. Auk þess fréttist af glóbrystingum og svartþröstum í Núpasveit. Mjög óvenjulegt er að slíkur fjöldi flækingsfugla berist á þetta landsvæði á svona skömmum tíma og er talið að slíkt hafi ekki gerst að hausti síðan í október 1982. Á vefnum Siglfirðingur.is má sjá margar myndir teknar í gær  (3. nóv) á Siglufirði af Sigurði Ægissyni.

Í því tíðarfari sem nú ríkir er gott að henda út fóðri handa smáfuglunum. Epli eru sérstaklega vinsæl meðal silkitoppa en aðrir fuglar sækja einnig í þau, aðrir ávextir eins og vínber og perur virka einnig vel. Hvers kyns fituafgangar (eða t.d. smurt brauð) og kjötsag er einnig vinsælt meðal þrasta og söngvara en finkur (þám auðnutittlingar) sækja í fræ – sólblómafræ eru vinsælust. Náttúrustofan hvetur fuglaáhugafólk til að hafa augun hjá sér og senda tilkynningar og myndir af flækingsfuglum, jafnvel algenga eins og svart- og gráþresti, á netfangið yann@nna.is.

flaekingar
Glóbrystingur í fjöru við Mánárbakka.
flaekingar1
Gráþrestir á Höfðagerðissandi.
flaekingar2
Gransöngvari á Mánárbakka.
flaekingar3
Silkitoppa skammt sunnan við Eyvík.
flækingar4
Svartþrastarkarl á Höfðagerðissandi.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin