Nýr starfsmaður

Nýr starfsmaður, Yann Kolbeinsson, hóf störf hjá Náttúrustofunni þann 1. febrúar s.l. Yann er með B.Sc. gráðu í líffræði frá HÍ og stundar þar M.Sc. nám í fuglavistfræði. Hann vann áður á Náttúrustofu Suðurlands frá 2005 til loka árs 2007 þar sem hann stundaði m.a. rannsóknir á búsvæðavali og vistfræði óðinshana og þórshana, sem er meistaranámsverkefnið hans, og rannsóknir á farháttum skrofa í Atlantshafi. Yann hefur einnig komið að tímabundnum verkefnum hjá Náttúrustofu Norðausturlands árin 2004 og 2006. Auk þess hefur hann því sem næst árlega, frá 1996, komið að fuglatalningum í Suður-Þingeyjarsýslu á vegum Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn. Yann er einn af helstu fuglaskoðurum landsins og heldur úti vinsælli heimasíðu um flækingsfugla hér á landi.

yann
Yann Kolbeinsson

Á Náttúrustofunni munu helstu verkefni Yanns tengjast vöktun fugla í Þingeyjarsýslum en á fjárlögum ársins 2009 fékk stofan sérstaka fjárveitingu til slíkra verkefna. Fjárveitingin var samþykkt á grundvelli tillagna nefndar forsætisráðuneytisins um atvinnu og samfélag á Norðurlandi eystra og Austurlandi. Hlutverk nefndarinnar var að leggja fram tillögur um aðgerðir ríkisins til að styrkja atvinnu og samfélag á þessu landssvæði. Miðuðu tillögurnar m.a. að því að efla starfsemi opinberra stofnana og efla þannig atvinnutækifæri á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Fjárveitingin gerir Náttúrustofunni kleift að ráða Yann til starfa og efla þannig starfsemina á sviði fuglavistfræði. Tillögur nefndar forsætisráðuneytisins hafa þar með haft það í för með sér að efla starfsemi Náttúrustofu Norðausturlands auk þess að fjölga Húsvíkingum á kostnað Reykvíkinga en Yann er nú búsettur á Húsavík.

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin