Nýjar tegundir í fiðrildagildrum Náttúrustofunnar

Að jafnaði berast um 25 tegundir fiðrilda á ári í ljósgildru Náttúrustofunnar í Ási, þar af koma 13 tegundir árlega. Á Skútustöðum eru tegundirnar að jafnaði um 16 talsins, þar af 9 tegundir sem koma fram á hverju ári. Það eru þessar árlegu tegundir sem koma fram í miklu magni sem skipta hvað mestu máli í vöktun á fiðrildastofninum. Niðurstöður algengra tegunda síðasta árs má sjá hér.

Starfsmaður Náttúrustofunnar hefur notið aðstoðar skordýrasérfræðings Náttúrufræðistofnunar Íslands við greiningu á sjaldgæfari og torgreindum tegundum. Í janúar var farið yfir vafaatriði síðustu þriggja ára og er því búið að fullgreina allan afla fram til ársins 2015. Því sem næst á hverju ári bætast við nýjar tegundir á báðum stöðum. Í Ási hafa frá upphafi veiðst 43 tegundir og 33 á Skútustöðum.

Tegundalisti
Listi yfir þær tegundir sem fundist hafa í ljósgildrum Náttúrustofu Norðausturlands. Tvær tegundir hafa enn ekki hlotið íslenskt heiti.
Á hverju ári berast í gildrurnar sjaldgæf fiðrildi og því eykst heildarfjöldi fiðrilda. Eftir því sem árin líða ætti smám saman að draga úr þessari aukningu.

Nýjar tegundir síðustu þriggja ára voru 4 talsins fyrir vöktunarverkefni Náttúrustofunnar en að auki voru tvær nýjar fyrir Ás og fjórar fyrir Skútustaði. Greint verður frá þessum tegundum hér á eftir en upplýsingar um tegundirnar eru fengnar af pödduvef Náttúrufræðistofnunar Íslands þar sem finna má enn frekari fróðleik.

Sefpysja (Coleophora alticolella) er ný fyrir vöktun Náttúrustofunnar. Eitt eintak kom fram í Ási árið 2013. Þetta er íslensk tegund sem er náskyld hærupysju (C. algidella) sem kemur árlega í gildruna í Ási. Þessar tegundir eru mjög smáar og svo líkar að þær verða einungis greindar í sundur á kynfærum.

Einifeti (Eupithecia pusillata) kom fram á báðum stöðum árið 2015 eitt fiðrildi í hvora gildru. Þetta er frekar fáliðuð íslensk tegund sem lifir á eini. Hún er mjög lík öðrum tegundum þessarar ættkvíslar s.s. mófeta (E. satyrata) sem er algengur í gildrum Náttúrustofunnar en flýgur hins vegar seinna á árinu en hann.

Hrossygla (Apamea exulis) er norðlæg tegund sem er þrífst best á hálendinu hérlendis þó hún finnist um allt land. Fyrsta hrossyglan í Ási kom árið 2015 en hún hefur einu sinni fundist á Skútustöðum.

Úlfygla (Eurois occulta) er norðlæg tegund sem er mjög fágæt hérlendis. Árið 2015 komu þrjár í Ási og ein á Skútustöðum. Óvíst er um upprunann en þetta gætu verið hvort sem er íslensk fiðrildi eða flækingar erlendis frá.

Hringygla (Mniotype adusta) er íslensk tegund sem kom í fyrsta sinn í gildruna á Skútustöðum árið 2013, þá tvö fiðrildi. Hún hefur einu sinni fundist í Ási.

Gulygla (Noctua pronuba) er ein stærsta fiðrildategundin á Íslandi. Hún kemur nær árlega í gildruna í Ási en fannst ekki á Skútustöðum fyrr en árið 2015 þegar 10 fiðrildi af tegundinni komu í gildruna. Það ár komu 39 gulyglur í gildruna í Ási sem er meira magn en komið hafði átta árin á undan. Það er því ljóst að mikil uppsveifla hefur verið hjá gulyglu árið 2015 eða að mikið magn þeirra hafi borist erlendis frá.

Netluygla (Xestia c-nigrum) er talin fágætur flækingur hér á landi, fundin á örfáum stöðum. Ein slík kom í gildruna á Skútustöðum árið 2015.

Kálmölur (Plutella xylostella) kemur nær árlega í gildruna í Ási en fannst ekki fyrr en árið 2013 á Skútustöðum, þá tvö fiðrildi og árið eftir kom eitt. Þessi tegund hefur alltaf borist hingað til lands í talsverðum mæli enda með mikið flökkueðli. Með hlýnandi loftslagi virðist þessi tegund geta náð að lifa veturinn af hérlendis.

Kjarrvefari (Apotomis sororculana) kemur oft fyrir í gildrunni í Ási en árið 2013 kom fyrsta og eina fiðrildi tegundarinnar í gildruna á Skútustöðum. Kjarrvefari er frekar sjaldgæfur hér á landi og fylgir birkiskógum og birkikjarri. Það skýrir mun á tegundinni á milli staða en mun meira er um birki í næsta nágrenni gildrunnar í Ási en á Skútustöðum.

Barrvefari (Zeiraphera griseana) er nýlegur landnemi hérlendis sem sennilega hefur borist til landsins með gróðurvörum. Hann lifir alfarið í ræktuðum barrskógum og getur verið skaðvaldur. Tegundin fannst fyrst í Hallormsstaðaskógi árið 1992, var kominn í Fljótshlíðina árið 1997 og fáum árum síðar um allt sunnanvert landið. Hér nyrðra hafði eitt fiðrildi fundist í gildrunni á Skútustöðum. Barrvefarinn er mjög líkur tígulvefara (Epinotia solandriana) sem er eitt algengasta fiðrildið í gildum Náttúrustofunnar. Til að greina þessar tegundir í sundur með öryggi þarf að skoða kynfæri. Það hafði ekki verið gert fram að þessu en eftir fund barrvefarans á Skútustöðum var ákveðið að beita kynfæragreiningum á alla tígulvefara í gildrunum. Barrvefari fannst á hverju ári eftir það í Ási þ.e. 2013-2015 en aðeins fáir hvert ár en hann hefur ekki fundist aftur á Skútustöðum. Ljóst er að barrvefarinn hefur numið land hér nyrðra en hvorug gildran er staðsett mjög nærri barrskógum og því ólíklegt að hann eigi eftir að koma í miklum magni í gildrurnar.

 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin