Ný vísindagrein um árstíðabundinn breytileika í magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum

Starfsmenn Náttúrustofunnar eru meðal höfunda að nýrri vísindagrein um árstíðabundinn breytileika í magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum, sem kom út á rafrænu formi í vísindaritinu Science of The Total Environment nú í vikunni. Um er að ræða alþjóðlega rannsókn sem leidd var af vísindamönnum á rannsóknarstofu háskólans í La Rochelle og CNRS í Frakklandi og byggir á mælingum á kvikasilfri í fjöðrum níu sjófuglategunda. Helstu niðurstöður voru þær að magn kvikasilfurs var þrisvar sinnum hærra yfir veturinn en á varptíma. Þá kom einnig í ljós munur milli hafsvæða sem var með þeim hætti að í V-Atlantshafi var munurinn milli þessara tímabila nífaldur, í A-Atlantshafi var hann þrefaldur en í Kyrrahafi reyndist munurinn tæplega tvöfaldur. Mælingar á magni kvikasilfurs í einstaka fuglum sýndu ennfremur að í flestum sjófuglabyggðum sem rannsóknin fór fram í reyndist magn kvikasilfurs að vetri fara yfir þau mörk að teljast óskaðlegt fuglunum. Benda þær niðurstöður til þess að sumum varpstofnum sjófugla geti stafað hætta af kvikasilfursmengun á vetrarstöðvum.

Árstíðabundinn breytileiki á magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum.
Árstíðabundinn breytileiki á magni kvikasilfurs í sjófuglum á norðurslóðum.

 

Þess má geta að Ísland féll innan þess hafsvæðis sem taldist til vesturhluta Atlantshafsins og náðu mælingar hér til stuttnefju og langvíu í Grímsey og á Langanesi. Að meðaltali voru langvíurnar ekki jafn útsettar fyrir kvikasilfursmengun og stuttnefjur. Skýringa á þessum mun er líklega einkum að leita í mismunandi vetrarstöðvum tegundanna en fyrri rannsóknir Náttúrustofunnar hafa sýnt fram á að stuttnefjur úr þessum byggðum dvelja að miklu leyti við vestanvert Grænland en langvíur fyrir norðan Ísland (sjá: https://doi.org/10.1007/s00300-018-2334-1)

Nánar má lesa um niðurstöður rannsóknarinnar með því að smella hér.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin