Ný fiðrildategund finnst á Íslandi

Fundur tegundar sem ekki hefur áður sést á Íslandi þykir alltaf merkilegur. Einn slíkur fundur átti sér stað á hálendinu norðan Vatnajökuls síðastliðið sumar þegar landvörður á svæðinu fann stórt og dökkt fiðrildi. Talið var í fyrstu að um aðmírálsfiðrildi væri að ræða en þegar myndir af fiðrildinu bárust Náttúrustofunni var ljóst að um eitthvað allt annað og mun sjaldgæfara var að ræða. Fiðrildið var greint til tegundarinnar Maniola jurtina og fékkst staðfesting á því frá Erling Ólafssyni skordýrafræðingi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ekkert íslenskt heiti er til fyrir tegundina.

Ny-fidrildategund1

Maniola jurtina er með algengustu fiðrildum í Evrópu sunnan 62. breiddarbaugar og nær útbreiðslan austur til Úralfjalla og suður til nyrsta hluta Afríku. Það er mun stærra en þær tegundir fiðrilda sem lifa á Íslandi og getur vænghafið orðið allt að 6 sm. Grunnliturinn er brúnn en ofan á fremri vængjum eru gul svæði með svörtum „augum“ með hvítum bletti í. Tegundin er nokkuð breytileg þar sem magn gula litarins er mismikið. Karldýrin eru dauflitari en kvendýrin. Ny-fidrildategund2

Maniola jurtina hefur einn lífsferil á ári. Eggjum er verpt að sumarlagi og klekjast þau á um tveim vikum. Lirfurnar lifa á ýmsum tegundum grasa og eru mjúku blöðin á vallarsveifgrasi í uppáhaldi. Lirfurnar þreyja veturinn með því að skríða ofan í svörðinn og halda svo áfram áti um vorið uns þeirri stærð og þroska er náð að púpun getur átt sér stað. Það tekur svo fiðrildið þrjár vikur að þroskast í púpunni. Fullorðin fiðrildi geta fundist nánast allt sumarið en eru algengust í júlímánuði og fram í byrjun ágúst. Þau lifa á blómasafa úr ýmsum blómplöntum.

Þessi tegund fiðrilda er ekki þekkt fyrir flökkueðli af nokkru tagi og má telja afar ólíklegt að það hafi komið til Íslands fyrir tilstilli eigin vöðvaafls. Mun líklegra er að þessi ævintýragjarni einstaklingur hafi húkkað sér far með ferðalöngum á leið til Íslands en gengið illa að fá far til baka aftur því hann fannst látinn á bílaplani við Vikraborgir í Öskju. Eftirtektarsamur landvörður, Stefanía Eir Vignisdóttir, áttaði sig á að þarna var ekki um vejnulegan ferðalang að ræða og flutti hann með nærgætni til byggða hvar hann hefur nú verið festur á nál. Eintakið verður varðveitt í skordýrasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands um ókomna tíð.

Myndir:

Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir

Heimildir:

Learn about Butterflies. http://www.learnaboutbutterflies.com/Britain%20-%20Maniola%20jurtina.htm (skoðað 6.2.2012)

UK Butterflies. http://www.ukbutterflies.co.uk/species.php?species=jurtina (skoðað 6.2.2012)

Wikipedia. http://en.wikipedia.org/wiki/Meadow_Brown (skoðað 6.2.2012)


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin