Niðurstöður vetrarfuglatalningar

Árleg vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands fór fram kringum áramótin og var þetta jafnframt í 62. skipti sem þessar talningar eiga sér stað. Annan veturinn í röð voru óvenjumörg svæði talin á Norðausturlandi eða 24 talsins. Fjöldi fugla var því enn og aftur mest mesta móti, eða 27.223 af 46 tegundum (auk ógreindra fugla og blendinga sem voru 6).

Æðardrottning
Æðardrottning Somateria spectabilis hefur haldið til í Húsavíkurhöfn undanfarna vetur og hefur hún ekki látið sig vanta þetta árið. Hér er hægt að bera hana saman við æðarkollu fjær.

Þetta er þriðja talningin í röð þar sem sem fjölda fugla og tegunda er í hærra lagi, en skýrist það af átaki talningarmanna við að telja alla strandlengju Melrakkasléttu í nokkrum áföngum. Nú tókst að klára þá syrpu með því að telja á fimm nýjum talningarsvæðum um Mið- og Austur-Sléttu, frá Oddsstöðum austur á Hestamöl og frá Vogi suður að Ormarslónshöfða. Fram að þessu var lítið vitað um fjölda fugla við Sléttu að vetrarlagi en nú er heldur betur búið að bæta þá þekkingu.

Sem fyrr kemur æðarfuglinn sterkastur út, en nú sáust 14.505 slíkir, eða rúm 53% af heildarfjölda fugla sem er nokkuð hefðbundið. Þó eru vísbendingar um að honum sé að fækka á svæðinu en við Tjörnes sáust aðeins 5636 fuglar samanborið við 9543 fugla í talningu veturinn 2012-2013. Óvíst er hvað veldur fækkuninni en margt getur spilað þar inn í. Nánar má lesa um niðurstöður talningu í töflunni hér fyrir neðan.

talning_2013

Sökum þess að sumar talningar fóru fram frekar seint í janúar sást nú töluverður fjöldi af fýl og súlu. Flestir aðrir fuglar eru á svipuðu róli og oft áður, bjartmáfar sáust þó í þokkalegu magni en aftur á móti voru svartfuglar ekki mjög sýnilegir núna. Korpönd sást nú í fyrsta skipti í vetrarfuglatalningu hér, en um stakan stegg á Melrakkasléttu var að ræða. Einnig er óvenjulegt að tildrur sjáist hér að vetrarlagi, en tvær voru í nágrenni Rifs á Sléttu. Annars voru flækingsfuglar fremur fáir, æðarkóngar sáust í nágrenni Húsavíkur og við austanverða Sléttu, hvinönd við austanverða Sléttu, einn gráhegri (við Kaldbak), skógarsnípa á Húsavík og hrímtittlingur síðasta árs var aftur kominn í vetursetu í Háagerði.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur við niðurstöðum talninga en lesa má meira um þessar vetrarfuglatalningar sem og skoða niðurstöður á landsvísu aftur til 2002 á vef Náttúrufræðistofnunar. Einnig bendum við á langtímaniðurstöður talninga umhverfis Tjörnes sem sjá má á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Talningarfólk í Þingeyjarsýslum að þessu sinni voru Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Bergþóra Kristjánsdóttir, Birkir Fanndal, Garpur Loki Gunnarsson, Gaukur Hjartarson, Guðmundur Örn Benediktsson, Gunnar Óli Hákonarson, Hermann Bárðarson, Jóhann Gunnarsson, Katrín Von Gunnarsdóttir, María Einarsdóttir, Sigurður Ólafsson, Snæþór Aðalsteinsson, Sólveig Illugadóttir, Vilhjálmur Jónasson, Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin