Niðurstöður sjófuglavöktunar sumarið 2016

Náttúrustofa Norðausturlands vaktar ástand sjófuglastofna á Norðausturlandi með reglubundnum hætti. Vöktunin felur m.a. í sér árlegar talningar á skilgreindum talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi á Langanesi og í Grímsey. Sniðin voru upphaflega sett út og talin að frumkvæði Arnþórs Garðarssonar, prófessors við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, sem hóf staðlaðar talningar í Skoruvíkurbjargi árið 1986 en árið 2009 í Grímsey. Sniðin eru talin á sama tíma, með sömu aðferðum, ár hvert. Niðurstöður talninga á fjórum tegundum bjargfugla í þessum tveimur byggðum sumarið 2016 hafa nú verið teknar saman og eru birtar í formi vísitalna, þar sem árlegar breytingar eru sýndar sem hlutfall af fjöldanum sumarið 2009 (1. mynd).

Fækkun ritu og stuttnefju í Skoruvíkurbjargi hefur verið mikið áhyggjuefni. Það er þó gleðilegt að sjá að botninum virðist hafa verið náð, ef svo má að orði komast, að því gefnu að sú litla fjölgun sem sjá má milli ára haldi áfram. Sambærilegt mynstur má sjá í Grímsey. Það skal þó ítrekað að fjöldi rituhreiðra í Skoruvíkurbjargi sumarið 2016 er rétt rúm 15% af fjöldanum sumarið 1994 þegar stofninn var í hámarki. Fjöldi stuttnefja þar nú er rúm 20% af fjöldanum sumarið 1986.

Aðra sögu er að segja um langvíu. Byggðin í Skoruvíkurbjargi náði hámarki mun síðar en stuttnefjan, eða sumarið 1999. Í kjölfarið fækkaði langvíu mikið á skömmum tíma en frá 2005 hefur fækkunin hægt á sér. Bendir það sterklega til að mismunandi þættir séu að hafa áhrif á viðkomu þessara tveggja svartfuglategunda. Enn og aftur má sjá svipaða þróun milli Grímseyjar og Skoruvíkurbjargs frá árinu 2009.

Breytingar hjá fýl virðast í stórum dráttum haldast að mestu í hendur í Grímsey og Skoruvíkurbjargi. Talsverða fækkun má greina til langs tíma í Skoruvíkurbjargi.

1. mynd. Vísitala á fjölda svartfugla, fjölda rituhreiðra og fjölda fýlssetra á talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi (rauðir hringir), 1986-2016, og Grímsey (grænir hringir), 2009-2016. Gögn frá 1986 – 2005 í Skoruvíkurbjargi og úr Grímsey 2009 eru birt með leyfi Arnþórs Garðarssonar.
1. mynd. Vísitala á fjölda svartfugla, fjölda rituhreiðra og fjölda fýlssetra á talningarsniðum í Skoruvíkurbjargi (rauðir hringir), 1986-2016, og Grímsey (grænir hringir), 2009-2016. Gögn frá 1986 – 2005 í Skoruvíkurbjargi og úr Grímsey 2009 eru birt með leyfi Arnþórs Garðarssonar.

Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin