Náttúrustofan hefur nú lokið uppfærslu Náttúrugripasafns Suður Þingeyinga. Verkið var unnið fyrir Safnahúsið á Húsavík og fólst í að endurhanna þann hluta sem snýr að sýningu á fuglum. Á safninu eru sex sýningarskápar með fuglum og var áherslum breytt nokkuð frá því sem áður var.
Fuglum er nú skipt upp í skápa eftir búsvæðum og flækingsfuglum eru nú gerð skil í sérstökum skáp. Í hverjum skáp er veggspjald þar sem koma fram helstu upplýsingar um viðkomandi búsvæði og þá fugla sem í því búa (þær tegundir sem eru í skápnum). Auk þess er á veggspjaldinu kort sem vísar til hvar viðkomandi búsvæði er helst að finna í Þingeyjarsýslum. Um leið er í raun verið að vísa hvar helst sé að finna þær tegundir sem eru í viðkomandi skáp. Veggspjöldin eru á íslensku og ensku.
Markmiðið með þessari uppfærslu er að auka fræðslugildi safnsins og tengja fuglana við umhverfið þannig að gestir safnsins geri sér grein fyrir hvar helst sé að finna fuglana lifandi úti í náttúrunni.
