Náttúrustofan tekur þátt í Fuglastígnum

Þriðjudaginn 2. mars var haldinn stofnfundur félagsins Fuglastígur á Norðausturlandi. Tilgangur félagsins er að vera samstarfsvettvangur fyrirtækja og einstaklinga á Norðausturlandi um uppbyggingu fuglaskoðunar á svæðinu og ferðaþjónustu henni tengdri.

Takmark félagsins er að efla ímynd Norðausturlands sem eftirsóknarverðs fuglaskoðunarsvæðis, með því að þróa og bjóða upp á þjónustu fyrir fuglaskoðara sem byggir á því mikla og fjölbreytta fuglalífi sem er að finna á svæðinu.

Stofnfundurinn var haldinn í Gljúfrastofu og hann sóttu um 30 manns víðs vegar að svæðinu, allt frá Mývatnssveit að Langanesi. Samkvæmt samþykktum félagsins skal Náttúrustofa Norðausturlands og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga skipa sameiginlegan fulltrúa í stjórn en aðrir stjórnarmenn eru kosnir á aðalfundi. Náttúrustofan og Atvinnuþróunarfélagið skipuðu Þorkel Lindberg Þórarinsson forstöðumann Náttúrustofunnar í fyrstu stjórn en aðrir stjórnarmenn eru Mirjam Blekkenhorst frá Farfuglaheimilinu á Ytra Lóni á Langanesi, Pétur Bjarni Gíslason frá Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit, Hermann Bárðarson verkefnisstjóri Umhvefisskólans og Kolbrún Úlfsdóttir frá Gistiþjónustunni Rauðuskriðu. Varamenn í stjórn eru Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður í Vatnajökulsþjóðgarði, Ásdís Erla Jóhannesdóttir frá Sel-Hótel Mývatn og Oddur Örvar Magnússon sem vinnur að uppbyggingu gistiaðstöðu í Flatey.

Fuglastigur

Segja má að félagið sé formlegt framhald á verkefni sama heitis sem unnið hefur verið að á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í samstarfi við Náttúrustofu Norðausturlands, Félag fuglaáhugamanna í Þingeyjarsýslum og fleiri aðila á undanförnum árum. Af þeim verkefnum sem Náttúrustofan hefur komið að má nefna gerð bæklinga og skilta. Tveir bæklingar hafa komið út. Fyrri bæklingurinn tók fyrir fugla á strandsvæðum Þingeyjarsýslu en í hinum síðari var öll Þingeyjarsýsla undir og þar sýndir helstu fuglastaðir á Fuglastígnum. Búið er að setja upp fjögur skilti á Fuglastígnum en Náttúrustofan sá um textavinnu fyrir þessi skilti sem og fleiri sem enn á eftir að setja upp. Þá hefur Náttúrustofan verið með erindi um fugla og fuglaskoðun fyrir aðila í ferðaþjónustu, séð um að leiðsögn fyrir erlenda sérfræðinga sem komu að stefnumótunarvinnu Atvinnuþróunarfélagsins og kynnt Fuglastíginn á alþjóðlegri fuglakoðunarhátíð á Englandi. Að lokum má nefna að Náttúrustofan átti fulltrúa í undirbúningshópi sem vann að stofnun Fuglastígsins.

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin