Náttúrustofa Norðausturlands rannsakaði í sumar sjófugla við Tjörnes, annað árið í röð. Rannsóknir sumarsins voru hluti verkefnis sem felst í að kanna þróun í stofnstærð og útbreiðslu sjófugla við Tjörnes. Þannig hafa nú sjófuglabyggðir verið kannaðar allt frá Æðarfossum í vestri að Lónum í austri, auk þess sem farið hefur verið út í Mánáreyjar, Lundey og Flatey. Sambærileg úttekt var gerð að frumkvæði Náttúrufræðistofnunar Íslands árin 1981 og 1982.
Markmið rannsóknarinnar er að lýsa og skýra þá þróun sem orðið hefur á sjófuglastofnum við Tjörnes síðasta aldarfjórðung. Unnið er í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og verða endanlegar niðurstöður kynntar þegar úrvinnslu gagna lýkur í vetur.
Samkvæmt fyrstu tölum hafa þó nokkrar breytingar orðið á síðasta aldarfjórðungi. Nokkrar breytingar hafa t.a.m. orðið á lundavörpum en almennt virðist lunda hafa fjölgað á svæðinu. Stærsta lundabyggðin er nú í Lágey þar sem eru rúmlega 40.000 pör samkvæmt bráðabirgðatölum. Þar hefur útbreiðsla lundabyggðarinnar breyst mikið og fjölgun orðið um 10.000 varppör frá því um 1980. Í Flatey hafa orðið miklar breytingar þar sem einnig hefur orðið ógnarfjölgun. Nú teljast vera þar um 8.000 pör samkvæmt bráðabirgðatölum en um og upp úr 1980 voru þar aðeins örfá pör.



