Náttúrustofan gefur út handbók í náttúrutúlkun

Bókin Náttúrutúlkun – Handbók er komin út hjá Náttúrustofu Norðausturlands. Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir skrifaði bókina en gerð hennar styrktu Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar, Vinir Vatnajökuls, Umhverfisráðuneytið og Ferðamálastofa.

Náttúrutúlkun er áhrifarík aðferð sem er notuð við fræðslu á vinsælum útivistarsvæðum víða um heim, svæðum sem hafa meðal annars að geyma einstakar náttúru- og menningarminjar. Aðferðir náttúrutúlkunar má einnig nota í kennslu með góðum árangri, t.d. í útinámi. Náttúrutúlkun varpar ljósi á það sem er gestum ekki endilega augljóst. Hún segir söguna á bak við útsýnið, náttúrufyrirbærið eða húsarústirnar og hún tengir saman auðlind og gest, þar sem auðlindin; náttúran og sagan öðlast sérstaka merkingu í hugum gesta.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Í handbókinni er fjallað um uppruna, hugmynda- og aðferðarfræði náttúrutúlkunar. Farið er yfir hlutverk þeirra sem túlka, helstu þætti í samskiptum og ýmis hagnýt atriði sem hafa þarf í huga við skipulag náttúrutúlkunar, einkum gönguferða. Fjallað er um ólíkar aðferðir náttúrutúlkunar, annars vegar lifandi túlkun með landverði eða leiðsögumanni og hinsvegar aðferðir þar sem gestir geta notið fræðslu einir og sjálfir, eins og skilti og náttúru- og sögustígar. Í bókinni er einnig fjallað um mikilvægi náttúrutúlkunar við verndun íslenskrar náttúru og framlag náttúrutúlkunar til sjálfbærrar náttúruferðamennsku. Að síðustu eru í handbókinni nokkrar góðar uppskriftir að atriðum sem eiga að gefa lesandanum hugmyndir um þau margvíslegu tækifæri sem við höfum til náttúrutúlkunar í íslenskri náttúru. Uppskriftirnar eru allar fengnar af Norðausturlandi en þær má auðveldlega aðlaga að öðrum landsvæðum.

2-2

Handbókin nýtist öllum þeim sem leiða gesti um náttúru Íslands og vilja ekki aðeins vekja áhuga þeirra á margbrotinni náttúru landsins heldur einnig skapa varanleg tengsl milli gesta og náttúrunnar, bæði vitsmunaleg og tilfinningaleg. Tengsl sem leiða af sér virðingu og væntumþykju, tengsl þar sem náttúran öðlast sérstaka merkingu í hugum gesta, og tengsl sem skilja eftir sig einstaka upplifun og dýrmætar minningar. Handbókin nýtist landvörðum, leiðsögumönnum, kennurum og öðrum þeim sem vilja tileinka sér aðferðir náttúrutúlkunar við leiðsögn og kennslu.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Bókin er 135 bls. í A5 broti, gormuð og í henni eru rúmlega 80 ljósmyndir. Bókin fæst hjá Náttúrustofu Norðausturlands og kostar kr. 3.900.- auk sendingarkostnaðar. Í sumar verður bókin einnig til sölu í gestastofum friðlýstra svæða og e.t.v. víðar. 


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin