Dagana 12.-14. október 2023 var haldin Líffræðiráðstefna Líffræðifélags Íslands þar sem Náttúrustofa Norðausturlands tók þátt bæði með veggspjaldi og erindi. Kynntar voru niðurstöður bjargfuglavöktunar á landsvísu 2009-2022 sem er undir yfirumsjón Náttúrustofu Norðausturlands en unnin með aðstoð fjölda samstarfsaðila um land allt. Bjargfuglavöktunin nær til 5 tegunda; fýls, ritu, langvíu, stuttnefju og álku og skoða má veggspjaldið og helstu niðurstöður vöktunarinnar hér.
Snæþór Aðalsteinsson, starfsmaður náttúrustofunnar, flutti einnig erindi um meginniðurstöður meistaraverkefnis síns sem sneri að vetrarstöðvum, vorfari og varpárangri hrafnsandakolla í Aðaldal og unnið var við Árósarháskóla.
Líffræðiráðstefnan er haldin annað hvert ár og er stærsti viðburður sinnar tegundar hér á landi. Hún var að þessu sinni haldin í Öskju – Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands og Íslenskri Erfðagreiningu. Flutt voru hátt í 100 erindi og álíka mörg veggspjöld kynnt. Spönnuðu viðfangsefni þeirra allt svið líffræðinnar.
