Náttúrustofa Norðausturlands til Prag

Dagana 25.-29. apríl flugu starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands og Hvalasafnsins á Húsavík til menningarborgarinnar Prag í Tékklandi.

Tékkland er staðsett nokkuð miðlægt í Evrópu milli Þýskalands, Póllands, Austurríkis og Slóvakíu. Höfuðborgin Prag sem jafnframt er fjölmennasta borg landsins, liggur í landinu miðju á bökkum hinnar miklu ár Moldár (Vltava). Prag liggur á sögulega mikilvægum krossgötum verslunar þar sem lengst af var einna auðveldast að komast yfir þennan mikla farartálma sem Moldá var bátlausum mönnum jafnframt því sem áin sjálf var mikilvæg flutningsleið varnings. Nafn árinnar hvort heldur sem er Moldá eða Vltava er gróflega þýtt „hið hömlulausa vatn“ og mismikil en árleg flóð gerðu ána erfiða að brúa. Viðarbrú var þó snemma reist í Prag en hana þurfti að endurbyggja nær árlega vegna eyðingarmátt flóða. Fyrsta steinbrúin (Judith brúin) var reist 1157 og stóð í 170 ár þegar hún hrundi í miklu flóði. Næsta steinbrú (Charles brúin), tók tæp 50 ár að reisa (1357-1402), en þá höfðu Pragbúar lært af reynslunni og var hún hærri og öll úthugsaðri. Stendur sú brú enn þann dag í dag þrátt fyrir ítrekuð stórflóð sem á henni hafa dunið. Í dag eru flóðin að einhverju leyti tempruð með virkjunum og stíflugörðum þó enn geti í einstaka árum hlaupið illilega í hana. Í dag eru brýrnar yfir Moldá orðnar 18 talsins innan bæjarmarka Prag og setja þær og áin mikinn svip á borgarlífið.

Löng saga þéttbýlis á svæðinu, merkilega góð varðveisla heilu borgarhverfanna og ólíkar pólitískar og trúarlegar stefnur í gegnum tíðina gerir byggingasögu Prag að stórmerkilegum, vel varðveittum hrærigraut ólíkra byggingarstefna allt frá miðöldum. Árið 1992 var hún gerð að UNESCO borg auk þess að vera sérlega falleg með mikið af grænum svæðum, þröngum kyrrlátum götum og líflegum torgum og endalausum kirkjubyggingum og öðrum glæsibyggingum í breytilegum stíl.

Ekki var það þó byggingarlist, verslunarsaga eða trúarbrögð sem drógu okkur til þessarar fallegu borgar. Til viðbótar við það að fá að njóta vors í apríllok í einkar fallegu umhverfi þar sem hitastig var eins og mestu sumarhitar á Íslandi og gróður kominn á fullt þó enn væri hann ferskur og blómlegur, þá áttum við einnig stefnumót. Annarsvegar  var um að ræða rannsóknar- og vísindasafnahluta Náttúrugripasafns Tékklands og hinsvegar var það fræðsluerindi og kynning á starfi CSO (Czech Society for Ornithology). Það eru félagasamtök með 6000 meðlimum sem sameinar áhugafólk og vísindamenn á sviði fuglafræði og fuglaverndar. Samtökin eru jafnframt tengiliður Tékklands við BirdLife International, líkt og Fuglaverndarfélag Íslands hér á landi. Þar er jafnframt staðsett skrifstofa höfuðstöðva EBCC (European Bird Census Council). Náttúrustofan skipar annan af tveimur fulltrúum Íslands í EBCC.

Vel var tekið á móti okkur á báðum stöðum. Á rannsóknarsafninu fengum við ítarlega kynningu um varðveisluhlutverk safnsins og mikilvægi þess fyrir ýmsar vísindalegar rannsóknir, auk þess sem við vorum leidd um rangála þess og sáum hami, beinagrindur og uppstoppuð dýr ólíklegustu tegunda bæði útdauðra og annarra, þeirra á meðal tveir geirfuglar sem safnað var við Íslandsstrendur á 19. öld. Hjá CSO var starfsemi Náttúrustofunnar kynnt fyrir þeim og sömuleiðis fengum við fræðsluerindi um uppbyggingu þeirra samtaka og mikilvægi samvinnu þjóða í gegnum BirdLife International til að fá betri heildarmynd af farleiðum og heildarútbreiðslu stofna og stofnstærðarbreytingar á alþjóða vísu. Einnig var rætt um styrkinn sem getur falist í því að virkja og þjálfa upp áhugasaman almenning til að telja og greina fugla, og auka jafnframt þátttöku almennings í endurheimt eða verndun fuglasvæða með virkri eða óvirkri (styrktaraðilar) þátttöku.

Það voru sáttir, sólfylltir og betur upplýstir starfsmenn sem lentu á Akureyrarvelli í 5°C hita aðfaranótt þriðjudags, meira og minna tilbúnir fyrir norðlenskt vettvangssumar.

WordPress Image Lightbox Plugin