Metfjöldi fiðrilda í Ási sumarið 2011

Náttúrustofa Norðausturlands starfrækir tvær ljósgildrur til að fylgjast með sveiflum í stofnum fiðrilda. Önnur er staðsett í Ási í Kelduhverfi og hefur sú gildra verið í gangi öll sumur frá árinu 2007. Hin gildran er á Skútustöðum í Mývatnssveit og var fyrst sett upp sumarið 2009. Að neðan sést gildran í Ási.

Fidrildi1

Þrátt fyrir að sumarið hafi ekki verið hlýtt þá komu fleiri fiðrildi í gildruna í Ási árið 2011 en nokkru sinni fyrr eða 7.038. Áður höfðu mest komið rúmlega 5.800 fiðrildi árið 2008. Þó fjöldinn sé mikill þá eru tegundirnar ekki margar. Búið er að greina með fullri vissu 20 tegundir en nokkur eintök á enn eftir að greina til tegundar. Gera má ráð fyrir að tegundafjöldinn verði nálægt meðallagi eða um 25.

Fidrildi2

Nokkrar tegundir voru að koma fram í meira magni í ár en áður. Ber þá fyrst að nefna víðifeta (Hydriomena furcata) sem kom fram í mestum fjölda þetta árið, sjá mynd að ofan. Af honum komu 2820 eintök í gildruna sem er ríflega sjöföldun frá árinu áður sem þó var metár. Aðrar tegundir sem komu fram í meiri fjölda en áður eru skrautfeti (Dysstroma citrata), klettafeti (Entephria caesiata), jarðygla (Diarsia mendica) og brandygla (Euxoa ochrogaster). Af mófeta (Eupithecia satyrata) hafa á hinn bóginn aldrei komið eins fá eintök áður. Í töflunni hér að neðan má sjá 10 algengustu tegundirnar árið 2011 raðað eftir fjölda og samanburð við niðurstöður síðustu ára.

Fidrildi3

Í gildruna á Skútustöðum komu mun færri fiðrildi en í Ás eða 792 sem er talsverð fækkun frá fyrra ári. Búið er að greina 15 tegundir en nokkur eintök bíða greiningar. Eins og í Ási þá var mest um víðifeta (365 eintök) sem er ekki met því mun meira var af honum árið áður. Mikil aukning var af túnfeta (Xanthorhoe decoloraria), grasvefara (Eana osseana) og jarðyglu frá árunum á undan en tígulvefara fækkaði mjög mikið. Tíu algengustu tegundirnar á Skútustöðum árið 2011 sjást í töflunni að neðan.

Fidrildi4

Hver tegund finnst á fullorðinsstigi þ.e. sem fiðrildi, aðeins á ákveðnu tímabili ársins sem spannar fáar vikur. Þetta er oft kallað flugtími tegundarinnar og er hann misjafn milli tegunda. Veðurfar á flugtíma hefur áhrif á hve mikið viðkomandi tegund er á ferli og þar af leiðir hve vel hún kemur í ljósgildrur. Af þessum sökum verða eðlilega nokkrar sveiflur á milli ára en mjög miklar sveiflur eru þó greinileg vísbending um fjölgun eða fækkun. Skyndileg breyting á fjölda fiðrilda af ákveðinni tegund er algeng en ástæðan ekki alltaf ljós. Þannig koma oft ár þar sem ein tegund er í miklum fjölda og geta þá lirfur hennar valdið skaða á þeirri plöntutegund sem hún þrífst helst á.

Fidrildi5

Líklegt verður að telja að lirfur víðifeta (sjá mynd að ofan), sem kom í svo miklu magni í ljósgildruna í Ási sumarið 2011, hafi verið duglegar að éta lauf af víðiplöntum sem er þeirra aðalfæða. Lirfurnar eru á ferli fyrripart sumars og púpa sig í júlí. Eftir það getur víðirinn náð sér á strik aftur ef tíð er hagstæð. Fiðrildi víðifeta eru svo í hámarki í ágúst en það eru eggin sem lifa veturinn af. Frekari upplýsingar um víðifeta má sá á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands með því að smella hér.


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin