Mandarínendur í Vesturdal

Mandarínendur hafa verið hafa verið að spóka sig í Vesturdal undanfarna daga. Þær halda sig á eða við bakka Vesturdalsárinnar. Steggir mandarínanda eru mjög skrautlegir. Þeir eru með appelsínugula fjaðraskúfa upp úr bakinu sem líkjast blævængjum eða litlum seglum og mikinn skúfur er aftan úr höfðinu sem lætur fuglinn virka mjög höfuðstóran. Breið hvít rák liggur frá augum og aftur á skúfinn sem er appelsínugulur. Kvenfuglinn er brúnleitur með hvítan augnblett. Fuglarnir í Vesturdal eru báðir steggir en þar sem komið er að fellitíma þá eru þeir búnir að missa mest af sínu skrautfiðri.

mandarinendur
Mynd: Már Eyfjörð fuglaáhugamaður

Mandarínendur (Aix galericulata) eru varpfuglar í austur Síberíu, Kína og Japan en vetrarstöðvar eru í suðaustur Kína og Japan. Sem búsvæði kjósa þær tjarnir og straummikla læki í skógum en fæðan er fyrst og fremst vatnaplöntur. Hreiðrinu er komið fyrir í holu í tré sem ungarnir hoppa úr eftir klak. Vegna þess hve litskrúðug þessi tegund er þá hefur hún verið flutt í fuglagarða víða um heim. Bretar hafa verið mjög ötulir við að flytja inn ýmsar framandi tegundir sem síðan hafa sloppið út eða þeim verið sleppt. Sumar þessara tegunda mynda nú hálfvillta stofna á Bretlandi og er mandarínöndin þar á meðal. Talið er nú sé um 1000 pör af mandarínöndum á Bretlandseyjum. Steggirnir tveir sem nú eru í Vesturdal eru að öllum líkindum af þessum breska stofni. Til ársloka 2004 höfðu 11 mandarínendur sést hér á landi þar af ein í Norður-Þingeyjarsýslu en það var kvenfugl sem heimsóttir Raufarhöfn í lok apríl árið 2004.

mandarinendur1
Mynd: Már Eyfjörð fuglaáhugamaður.
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin