Árið 2008 fékk Heimir Bessason, útvegsbóndi á Húsavík, fisk í veiðafæri sín sem var ólíkur öllum þeim fiskum sem hann var vanur að veiða hér á Skjálfanda. Hann frysti því fiskinn og kom honum svo síðar til Náttúrustofunnar. Þar á bæ klóruðu menn sér lengi í kollinum en komust ekki að neinni niðurstöðu svo hann var sendur til sérfræðings Hafrannsóknarstofnunar, Jónbjörns Pálssonar, sem greindi fiskinn sem lý (Pollachius pollachius).
Lýr er náskyldur ufsa en þeir tilheyra sömu ættkvísl. Lýr hefur mun sverari stirtlu en ufsi, rákin er sveigðari auk þess sem neðri kjálkinn skagar mun lengra fram hjá lý en ufsa. Liturinn, sem getur verið breytilegur, er oft ólífugrænn eða brúnn að ofan en silfraður að neðan ólíkt ufsanum sem er bláleitur.
Lýr lifir við vesturströnd Evrópu en er flækingsfiskur hér við land. Hann veiðist öðru hverju undan suðurströndinni en afar sjaldgæft er veiða hann við norðurströndina.