Í gær 12. mars mátti sjá augljós merki þess að loðna hafði gengið til hrygningar á Höfðagerðissandi á Tjörnesi. Máfager mikið var áberandi út undan ströndinni og leyndi sér ekki að fuglarnir voru í æti. Hver á eftir öðrum stungu máfarnir sér niður og minnti helst á súlukast. Sérstaklega voru riturnar duglegar við að stinga sér. Þarna voru líka toppendur kafandi eftir loðnu og æðarfuglinn í þéttum fleka kafandi eftir hrognum. Merki vorsins mátti sjá víðar en í sjónum því í björgum sat múkkinn og máfar sátu paraðir á varpstöðum út með Tjörnesi.
Loðna er smávaxinn uppsjávarfiskur af ættbálki laxfiska. Útbreiðsla hennar er á norðlægum slóðum allt í kringum Norðurpólinn. Íslenski loðnustofninn spilar lykilhlutverk í viskterfinu í kringum landið og er t.d. aðalfæða þorsksins. Uppeldissvæði loðnustofnsins eru langt norður í Íslandshafi en þegar líður að hrygningu kemur loðnan inn á landgrunnið. Þannig má segja að loðnan flytji á hverju ári gríðarlegan lífmassa norðan úr höfum inn í íslenska sjávarvistkerfið.
Helstu hrygningarsvæði loðnunnar hér við land eru úti fyrir Suður- og Vesturlandi en einnig eru þekkt hrygningarsvæði inni á fjörðum norðanlands og austan. Hrygningin fer fram á sandbotni á 10-150 m dýpi og límast hrogning við botlagið þar sem þau sitja þar til lirfan klekst út. Eitt af sérkennum loðnunnar er að kynin eru misstór. Loðnan er torfufiskur en þegar kemur að hrygningunni sjálfri skiljast kynin að. Hængarnir halda sig niður við botn en hrygnurnar ofar. Þegar tími hrygnunnar er kominn blandar hún sér í hængastóðið þar sem einn eða tveir hængar, eftir atvikum, ná „taki“ á hrygnunni. Þau synda síðan saman þétt við botninn örskamma stund á meðan hrygnan tæmir sig. Þá yfirgefur hrygnan svæðið en hængarnir geta aftur á móti farið nokkrar ferðir ef svo má segja. Þeir halda sig áfram á sama stað og endurtaka leikinn þar til þeir örmagnast eða drepast. Einnig drepast hængarnir oft af sárum sínum eftir að hafa nuddast mikið við botninn við leikinn. Á Höfðagerðissandi má sjá dauðar loðnur sem rekið hafa á land og eru það mest hængar, ef að er gáð.



