Ljósin slökkt!

Mánudaginn 29. október voru fiðrildagildrur Náttúrustofunnar teknar niður eftir að hafa verið í gangi í 28 vikur þetta árið. Gildrurnar voru settar upp 16. apríl og svo tæmdar vikulega allt fram á haust. Venjan hefur verið að taka gildrurnar niður 5. nóvember en vegna slæms veðurútlits var ákveðið að taka þær niður viku fyrr.

Þau fiðrildi sem álpast í gildrurnar eru geymd í frysti uns hentugur tími finnst til að greina og telja aflann. Það verður gert síðar í vetur og er stefnt að því að koma niðurstöðum þessara veiða á heimasíðuna þannig að hægt sé að fylgjast með ferlunum með einföldum hætti líkt og með vatnafuglavöktunina. Hægt er að sjá helstu niðurstöður síðustu ára með því að skoða frétt á heimasíðu Náttúrustofunnar frá 7. mars á þessu ári.

Náttúrustofan starfrækir tvær fiðrildagildrur. Önnur er staðsett við Ás í Kelduhverfi, sem er innan norðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Hin er á Skútustöðum í Mývatnssveit. Gildran í Ási hefur verið starfrækt á hverju sumri frá árinu 2007. Í hana hafa komið að meðaltali um 5000 fiðrildi á ári, af 26 tegundum en alls hafa komið 38 tegundir í þá gildru. Gildran á Skútustöðum hefur verið starfrækt frá árinu 2009 en fyrsta árið var hún ekki í gangi allan tímann. Í hana hafa komið að meðaltali rúmlega 1000 fiðrildi á ári af um 18 tegundum og hefur hún skilað alls 22 tegundum.

Fiðrildagildran á Skútustöðum tekin niður.

 

Fidrildagildra1
Verið að ganga frá fiðrildagildrunni við Ás.

Fidrildagildra2

WordPress Image Lightbox Plugin