Föstudaginn 8. nóvember s.l. héldu Þekkingarnet Þingeyinga og Náttúrustofa Norðausturlands upp á 15 ára starfsafmæli stofnananna en árið 2004 hófu þær starfsemi undir einu þaki Þekkingarseturs á Húsavík. Frá 2004 hafa fleiri stofnanir bæst í hópinn en rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík og Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra vinna einnig innan Þekkingarsetursins. Heilsársstarfsmenn eru nú um 15 talsins.
Fyrir hádegi komu nemendur 8-10 bekkjar Borgarhólsskóla og 3 bekkur Framhaldsskólans á Húsavík í heimsókn og fræddust um starfsemi og fjölbreytt verkefni stofnananna. Náttúrustofan kynnti meðal annars rannsóknir sínar á vatnalífi í Þingeyjarsýslum, rannsóknir á bjargfuglum, rannsóknir á vetrarstöðvum farfugla, rannsóknir á plasti í fýlum, fiðrildavöktun, gróðurvöktum á Þeistareykjum og kenndi nemendum að þekkja í sundur fullorðnar og ungar rjúpur með því að skoða vængi þeirra.
Að kynningum loknum var nemendum boðið upp á köku. Það var virkilega gaman að fá þessa áhugasömu nemendur í heimsókn.
Eftir hádegi var síðan opið hús á Þekkingarsetrinu þar sem almenningi gafst kostur á að fræðast um starfsemi Þekkingarsetursins, spjalla við starfsmenn og þiggja léttar veitingar. Á milli 50 og 60 gestir þáðu boðið.
Náttúrustofan þakkar öllum fyrir komuna og skemmtilegan dag.
Ingibjörg Benediktsdóttir tók meðfylgjandi myndir.















