Laumufarþegi frá Brasilíu til Húsavíkur

Stúlka frá Húsavík brá undir sig betri fætinum og skrapp til Brasilíu og dvaldi þar um tíma. Þar komst hún í kynni við moskítóflugur en svo óvenjulega vildi til að bólgan eftir eina stunguna hjaðnaði ekki heldur stækkaði frekar en hitt. Þegar stúlkan kom til baka til Íslands leitaði hún til læknis vegna þessa kýlis enda fylgdu því óþægindi. Þrátt fyrir ítarlega skoðun þá fannst ekki rétta ástæðan. Talið var að um eftirköst eftir stunguna væri að ræða, hugsanlega hefði eitthvað orðið eftir í stungusárinu og að þetta myndi hjaðna með tímanum. Stúlkan fékk því að hafa sitt kýli áfram. Svo var það kvöld eitt að stúlkan finnur sáran sting í kýlinu og athugar málið. Út úr því stendur þá vænn afturendi á lirfu sem var óðara fjarlægð. Stúlkan kom svo með þessa lirfu á náttúrustofuna. Þar var meðfylgjandi mynd tekin af lirfunni, hún greind til tegundar og henni svo safnað (drekkt í alkóhóli).

lirfa

Lirfan sem er um 18 millimetrar á lengd og um 8 millimetrar að breidd reyndist vera af tegundinni Dermatobia hominis. Þessi tegund hefur ekkert íslenskt heiti en hefur verið kölluð „Human Bot Fly“ á ensku. Hún tilheyrir ættinni Oestridae en tegundir þeirrar ættar lifa á lirfustigi inni í dýrum með jafnheitt blóð. Þessi tiltekna tegund lifir í suður og mið Ameríku. Lífsferillinn er þannig að eftir mökun leitar kvenflugan uppi blóðsjúgandi skordýr, oftast moskítóflugur sem hún veiðir á flugi. Hún verpir eggi eða eggjum á moskítófluguna og sleppir henni síðan. Hitinn frá dýri sem moskítóflugan stingur veldur því að eggið, eða lirfan ef eggið er klakið, fellur af flugunni á húðina. Lirfan skríður svo ofan í stungusárið, hársekk eða kemur sér á annan hátt ofan í húðina. Þar lifir svo lirfan á frumum og líkamsvökva dýrsins en afturendi lirfunnar nemur við yfirborð húðarinnar þar sem lirfan andar um tvö andop á afturendanum. Eftir 5 til 12 vikur er lirfan orðin fullvaxin og losar sig út úr húðinni, fellur þá á jörðina þar sem hún púpar sig og myndar að lokum fullorðna flugu.

Dermotobia hominis fer mest á nautgripi en á það til að fara á menn líka, hunda, ketti og fleiri húsdýr og getur í raun farið á öll þau dýr sem moskítóflugur sækja í. Ýmsar leiðir hafa verið viðhafðar til að losna við lirfur þessarar tegundar. Stundum eru þær kreistar út sem getur verið erfitt og sárt vegna þessa að lirfan er með brodda sem vísa aftur og virka sem akkeri (sjá brodda á mynd). Þá er oft reynt að loka fyrir opið þannig að lirfan neyðist út til að anda og þá er hægt að taka hana, jafnframt verður lirfan við þetta sljó af súrefnisskorti og getur jafnvel dáið. Nú á dögum er þó oftast skorið á kýlið og lirfan tekin þannig út.

Á eftirfarandi slóð má sjá þrjár lirfur fjarlægðar úr manni:

http://www.youtube.com/watch?v=knQGq5V_cUs

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin