Landsmót fuglaskoðara

Landsmót fuglaskoðara var haldið í N-Þingeyjarsýslu nú um helgina en það var Félag fuglaáhugamanna í Þingeyjarsýslum sem sá um skipulagningu. Áður hafa slík mót verið haldin að hausti á Höfn í Hornafirði. Ákveðið var að halda mótið hér að vori vegna þess hversu fjölbreytileg fuglafánan er á þessum slóðum á þeim árstíma.  Mótið hófst á kvöldmat í Skúlagarði í Kelduhverfi í gærkvöldi en þar á eftir var dagskrá laugardagsins kynnt.  Frá Skúlagarði var svo haldið í fuglaskoðun kl. 8 á laugardagsmorgun og slóst fulltrúi Náttúrustofunnar með í förina.

 

fuglaskodun
Fuglaskoðarar líta eftir fuglum við Leirhöfn á Sléttu

Strax á heimreiðinni að Skúlagarði sást góður fugl, en það var smyrill.  Fyrsta stoppistöð var svo á Víkingavatni.  Þar var mikið af fugli sem endranær og týndust inn bitastæðar tegundir þrátt fyrir kalsann.  Meðal fugla sem þar sáust voru skeiðandarsteggur, 2 gargandarpör og hrafnsandarpar.  Í Hólskrók í Kelduhverfi var að venju góður hópur skúfanda og með þeim hinn myndarlegasti hringandarsteggur. Farið var inn í Ásbyrgi og gengið inn að Botnstjörn.  Þar náðust skógarfuglarnir, músarrindill og auðnutittlingur, á dagslistann.  Einnig heyrðist þar í a.m.k. tveimur fuglum sem athugendur könnuðust ekki við.  Þrátt fyrir viðleitni tókst ekki að sjá þá fugla til að greina.  Við Valþjófsstaði í Núpasveit fannst kvenfugl æðarkóngs (=æðardrottning) innan um æðarfuglana.  Tegundirnar reittust inn hver af annari, grafönd sást við Núp í Öxarfirði, tveir helsingjar við Leirhöfn, straumendur og teista við Snartarstaðanúp svo eitthvað sé nefnt.  Keyrt var norður að Núpskötlu og þaðan gengið á Rauðanúp.  Í tveimur klettadröngum utan við núpinn eru góðar svartfuglabyggðir þar sem sáust langvíur, stuttnefjur og álkur.  Einnig verpa þarna súlur.  Milli dranganna var hópur æðarkónga, ein „drottning“, fimm ársgamlar „prinsessur“ og þrír ársgamlir „prinsar“.  Sennilega er þetta stærsti hópur æðarkónga utan SA-lands þar sem hafa sést í nokkur skipti fleiri fuglar saman.  Í víkinni austan Núpskötlu fannst einn fjöruspói, sem vonandi er vísbending um að þá sé enn að finna í varpi á Sléttu.  Fálki sást við Sigurðarstaði og annar í Hestvík.  Þriðji fálkinn fannst svo á Hraunhafnartanga og var hann að mestu hvítur – þar var því um að ræða norrænt litarafbrigði sem sjaldgæft er hérlendis og kallast hvítfálkiBlikandarkolla sást við Blikalón.  Þar hefur hún haldið sig á sama blettinum frá því í vetur og var þar reyndar einnig í fyrrasumar.  Blikendur eru sárasjaldgæfir flækingsfuglar hérlendis.  Brandandarpar var við Ásmundarstaði og stakur steggur við Höskuldarnes.  Brandendur hafa nokkur undanfarin ár orpið á Sléttu.  Í lok ferðarinnar var skotist að bænum Hóli á Sléttu til að sjá þar kanadagæs sem þar hefur verið undanfarna daga.  Landsmótið endaði svo í dýrindiskvöldmat að Hótel Norðurljósum á Raufarhöfn.

fuglaskodun1
Fólk var spennt yfir því að fara á Rauðanúp og skoða fugla.

Landsmótið tókst í alla staði vel. Alls sáust í ferðinni 69 tegundir fugla, sem var nokkuð umfram væntingar. Að líkindum er er hvergi á landinu mögulegt að tína til svo margar tegundir í námunda við aðeins 100 km langan kafla af þjóðvegakerfinu! Veður var heldur leiðinlegt, hiti var aðeins örskammt ofan frostmarks, nokkur vindur af norðri og stöku él. Þátttakendur létu það ekki mikið á sig fá, en klæddust í samræmi við aðstæður. Móttökur sem landsmótsgestir fengu að Skúlagarði og Hótel Norðurljósum voru alveg til fyrirmyndar. Því miður var heldur þunnskipaður hópurinn, en aðeins níu manns tóku þátt í landsmótinu. Þar réði væntanlega miklu hrakleg veðurspá, sem síðan gekk að mestu eftir.

fuglaskodun2
Setið á Rauðanúp og skoðað yfir í Karlinn (Jón Trausta).

Gaukur Hjartarson


Warning: Undefined array key "show_post_count" in /home/customer/www/nna.is/public_html/wp-content/plugins/anual-archive/annual_archive.php on line 711
WordPress Image Lightbox Plugin