Dagana 17. – 23. apríl s.l. dvaldist starfsfólk Náttúrustofu Norðausturlands í Seattle í Bandaríkjunum, ásamt starfsfólki Þekkingarnets Þingeyinga og Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.
Í Seattle heimsótti starfsfólk Náttúrustofunnar m.a. aðila sem sinna rannsóknum á sjófuglum og fræddist um störf þeirra reynslu og þekkingu.
Í University of Puget Sound í Tacoma, rétt sunnan Seattle, hitti starfsfólkið Peter Hodum prófessor við háskólann og stjórnarmann hjá Oikonos stofnuninni, sem leggur áherslu á vernd sjófugla og sjófuglarannsóknir. Hann fræddi mannskapinn um rannsóknir á plasti í sjófuglum en bæði Oikonos og University of Puget Sound taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir á plastmengun í hafinu, BIOPS (Biological Indicators of Ocean Plastic Pollution) en eins og fram kemur í frétt Náttúrstofunnar um plastmengun í hafi og plast í fýlum, hefur Náttúrustofan tekið að sér rannsóknir á plasti í fýlum (Fulmarus glacialis) hér á landi fyrir Umhverfisstofnun.
- Með Peter Hodum hjá University of Puget Sound.
Náttúrustofan heimsótti einnig samtökin Friends of Cooper Island þar sem George Divoky, stofnandi og forstöðumaður samtakanna, tók á móti starfsfólki Náttúrustofunnar. George hefur stundað rannsóknir á sjófuglum í Alaska allt frá árinu 1970 og býr yfir mikilli þekkingu á því sviði. George fræddi starfsfólk Náttúrustofunnar um langtímarannsóknir sínar á klapparteistum (Cepphus columba) á Cooper Island í Alaska en þær rannsóknir hans hafa hlotið alþjóðlega athygli, ekki síst í umræðum um loftlagsbreytingar.
Síðastliðin 44 ár hefur George dvalið, í um þrjá mánuði á hverju sumri, á þessari harðbýlu eyju norðan Alaska við rannsóknir á teistunum. Lengst af dvaldi hann í tjaldi en fyrir fáum árum þurfti hann að koma sér upp litlu húsi til að verjast ágangi hvítabjarna sem farnir voru að sækja í teistuvarpið í ætisleit. Hér má sjá myndband af hvítabirni þar sem hann reynir að ná ungum úr hreiðurtöskum sem George útbjó til að koma í veg fyrir að hvítabirnir éti teistuungana. Breytt hegðun hvítabjarna auk annarra breytinga á lífríki svæðisins er talið að megi fyrst og fremst rekja til loftlagsbreytinga og afleiðinga hlýnunar á heimskautasvæðum.
Að afloknum upplýsandi fundi á skrifstofu George bauð hann starfsfólki Náttúrustofunnar til kvöldverðar á heimili sínu ásamt fleiri gestum.
Hópurinn fékk síðan leiðsögn Húsvíkingsins Magnúsar Halldórssonar, sem nú býr í Seattle, um West Seattle þar sem hann kynnti hópinn m.a. fyrir poppmenningu borgarbúa í Easy Street Records.
- Með Magnúsi Halldórssyni í Easy Street Records.
Auk framangreindra fræðslu- og kynningarferða naut starfsfólkið þess að spóka sig um í þessari fallegu og ört stækkandi borg á vesturströnd Bandaríkjanna. Sumir létu þó ekki borgina duga heldur skelltu sér einnig í fugla- og hvalaskoðun í fjölbreyttri og fagurri náttúru Washington fylkis.