Kynnisferð Náttúrustofu Norðausturlands til Seattle

Dagana 17. – 23. apríl s.l. dvaldist starfsfólk Náttúrustofu Norðausturlands í Seattle í Bandaríkjunum, ásamt starfsfólki Þekkingarnets Þingeyinga og Rannsókna- og fræðaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.

Í Seattle heimsótti starfsfólk Náttúrustofunnar m.a. aðila sem sinna rannsóknum á sjófuglum og fræddist um störf þeirra reynslu og þekkingu.

Í University of Puget Sound í Tacoma, rétt sunnan Seattle, hitti starfsfólkið Peter Hodum prófessor við háskólann og stjórnarmann hjá Oikonos stofnuninni, sem leggur áherslu á vernd sjófugla og sjófuglarannsóknir. Hann fræddi mannskapinn um rannsóknir á plasti í sjófuglum en bæði Oikonos og University of Puget Sound taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir á plastmengun í hafinu, BIOPS (Biological Indicators of Ocean Plastic Pollution) en eins og fram kemur í frétt Náttúrstofunnar um plastmengun í hafi og plast í fýlum,  hefur Náttúrustofan tekið að sér rannsóknir á plasti í fýlum (Fulmarus glacialis) hér á landi fyrir Umhverfisstofnun.

Með Peter Hodum hjá University of Puget Sound.
Með Peter Hodum hjá University of Puget Sound.

Náttúrustofan heimsótti einnig samtökin Friends of Cooper Island þar sem George Divoky, stofnandi og forstöðumaður samtakanna, tók á móti starfsfólki Náttúrustofunnar. George hefur stundað rannsóknir á sjófuglum í Alaska allt frá árinu 1970 og býr yfir mikilli þekkingu á því sviði. George fræddi starfsfólk Náttúrustofunnar um langtímarannsóknir sínar á klapparteistum (Cepphus columba) á Cooper Island í Alaska en þær rannsóknir hans hafa hlotið alþjóðlega athygli, ekki síst í umræðum um loftlagsbreytingar.

Síðastliðin 44 ár hefur George dvalið, í um þrjá mánuði á hverju sumri, á þessari harðbýlu eyju norðan Alaska við rannsóknir á teistunum. Lengst af dvaldi hann í tjaldi en fyrir fáum árum þurfti hann að koma sér upp litlu húsi til að verjast ágangi hvítabjarna sem farnir voru að sækja í teistuvarpið í ætisleit. Hér má sjá myndband af hvítabirni þar sem hann reynir að ná ungum úr hreiðurtöskum sem George útbjó til að koma í veg fyrir að hvítabirnir éti teistuungana. Breytt hegðun hvítabjarna auk annarra breytinga á lífríki svæðisins er talið að megi fyrst og fremst rekja til loftlagsbreytinga og afleiðinga hlýnunar á heimskautasvæðum.

Að afloknum upplýsandi fundi á skrifstofu George bauð hann starfsfólki Náttúrustofunnar til kvöldverðar á heimili sínu ásamt fleiri gestum.

Með Georg Divoky og félögum hans hjá Friends of Cooper Island.
Með Georg Divoky og félögum hans hjá Friends of Cooper Island.

Hópurinn fékk síðan leiðsögn Húsvíkingsins Magnúsar Halldórssonar, sem nú býr í Seattle, um West Seattle þar sem hann kynnti hópinn m.a. fyrir poppmenningu borgarbúa í Easy Street Records.

Með Magnúsi Halldórssyni í Easy Street Records.
Með Magnúsi Halldórssyni í Easy Street Records.

Auk framangreindra fræðslu- og kynningarferða naut starfsfólkið þess að spóka sig um í þessari fallegu og ört stækkandi borg á vesturströnd Bandaríkjanna. Sumir létu þó ekki borgina duga heldur skelltu sér einnig í fugla- og hvalaskoðun í fjölbreyttri og fagurri náttúru Washington fylkis.

Yann og Aðalsteinn í fuglaskoðun við Ocean Shores skammt frá vesturströnd Washington fylkis
Yann og Aðalsteinn í fuglaskoðun við Ocean Shores skammt frá vesturströnd Washington fylkis
Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin