Krossnefir flæða yfir landið

Krossnefur (Loxia curvirostra) er spörfugl af finkuætt. Aðalheimkynni tegundarinnar liggja um barrskógabelti Evrópu, Rússlands og Norður-Ameríku. Krossnefir lifa að miklu leyti á könglum og fer varptími þeirra gjarnan eftir því hvenær könglarnir verða þroskaðir en algengt er að tegundin verpi um miðjan vetur. Sum árin verður vart við fæðuskort í lok varptímans á varpstöðunum og fer þá tegundin á flakk í leit að fæðu, oftast í júní-júlí. Í Evrópu koma fuglar, oft í stórum hópum, úr austri og bókstaflega flæða yfir norðan- og vestanverða álfuna. Oftar en ekki ná þessar göngur til Íslands, en þó í mjög mismiklum mæli.

krossnefur
Krossnefur á Húsavík. Karlfuglar þekkjast á rauðum búningi

Til ársins 2008 höfðu tvö varptilvik verið skrásett á Íslandi; par varp í Fljótshlíð í desember 1994 en ungarnir drápust skömmu eftir klak sökum illviðris, og í júlí 2006 sást kvenfugl með nærri fullvaxna unga í Hallormsstaðaskógi. Í kjölfar svolítillar göngu sumarið 2008 urpu krossnefir á nokkrum stöðum sunnan heiða síðastliðinn vetur. Fuglar sáust á þessum stöðum fram eftir vori og fram á sumar en 18. júní varð vart við fjóra fugla á ‘nýjum’ stað, í Nesjum á suðausturlandi. Voru það fyrstu fuglar mjög stórrar göngu sem gekk yfir landið nú í sumar. Um svipað leyti sáust einnig fyrstu flökku krossnefirnir í nágrannalöndum okkar (t.d. 19. júní á Hjaltlandseyjum norður af Skotlandi). Krossnefir sáust á nokkrum stöðum í Þingeyjarsýslum, þeir fyrstu 6. júlí á Húsavík (um 25 fuglar). Þar náði fjöldinn hámarki 9. júlí þegar um 30 fuglar sáust en ekki er ólíklegt að þeir hafi verið fleiri, bæði þar og annars staðar í sýslunum, þar sem þeir virtust vera hvert sem litið var.

krossnefur1
Að öllum líkindum ungur krossnefskarl, en sjá má glitta í rauðar fjaðrir í annars
gulgrænum búningi.

Meðfylgjandi súlurit sýnir þróun krossnefjatilkynninga um allt land árið 2009, til 31. ágúst. Á því sést vel hvernig gangan í sumar þróaðist. Hún virðist hafa náð hámarki í fyrstu viku júlí og gekk hratt yfir landið eða á 3-4 vikum. Grófleg áætlun á fjölda fugla sem tengjast þessari göngu bendir til að um 600-650 fuglar hafi sést. Fjöldi athugana í janúar tengist varpi tegundarinnar. Athugið að fjöldi krossnefja á y-ás súluritsins endurspeglar ekki raunfjölda fugla í hverri viku, heldur er heildartala allra tilkynninga (m.a. þegar hópar sáust fleiri en einn dag á sama stað).

krossnefur2
Krossnefir á Íslandi árið 2009 eftir vikum. Fjöldi á lóðrétta ásnum sýnir ekki raunfjölda (sjá texta).

Myndirnar af krossnefjunum eru fengnar með góðfúslegu leyfi Más.

 

 

 

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin
WordPress Image Lightbox Plugin