Köld tíð hefur áhrif á afkomu andarunga

Náttúrustofan hefur frá sumrinu 2008 talið fjölda andarunga nokkurra kafandartegunda á völdum votlendissvæðum á láglendi Þingeyjarsýslna. Sú talning fer fram í lok júlí eða byrjun ágúst þegar ungar eru oftast nær orðnir sæmilega stálpaðir og eru allar kafendur taldar og greindar til kyns og aldurs. Gögn um breytingar á fjölda hafa nú verið tekin saman fyrir skúf-, dugg-, hrafns- og toppendur sem eru algengustu kafendurnar á svæðinu.

Eins og sést á 1. mynd er óhætt að segja að sumarið 2015 hafi verið það versta frá upphafi en nánast engir ungar komust upp hjá fyrrgreindum tegundum. Mest sást af skúfandarungum, 76, sem þykir heldur slappt samanborið við metsumarið 2012 (1451 ungar). Einungis fimm toppandarungar sáust nú og loks tveir duggandarungar og jafnmargir hrafnsandarungar. Óhætt er að kenna köldu sumri um en hvað nákvæmlega hafði áhrif á afkomu unganna er erfitt að fullyrða um. Hugsanlegt er að veðurfar hafi haft bein áhrif á ungana en líklegra er þó að það hafi haft áhrif á smádýralíf á svæðinu sem ungarnir byggja viðveru sína á. Svipaða afkomu má sjá sumarið 2011 sem einnig var kalt framan af, þó hrafnsönd og toppönd hafi ekki fengið eins slæma útreið og nú í sumar.

1. mynd. Fjöldi kolla í vortalningu (fylltir hringir) og unga síðsumars (auðir hringir) nokkurra kafandategunda á völdum votlendissvæðum í Þingeyjarsýslum sem vöktuð eru af Náttúrustofunni.
1. mynd. Fjöldi kolla í vortalningu (fylltir hringir) og unga síðsumars (auðir hringir) nokkurra kafandategunda á völdum votlendissvæðum í Þingeyjarsýslum sem vöktuð eru af Náttúrustofunni.

 

2. mynd. Kafandarungar á ferðinni, duggönd til vinstri og skúfönd til hægri.
2. mynd. Kafandarungar á ferðinni, duggönd til vinstri og skúfönd til hægri.

 

 

 

WordPress Image Lightbox Plugin