Kampselir eru sjaldséðir gestir við strendur landsins en þó fréttist af þeim árlega. Oftast sjást þeir þar sem þeir hvílast á ís fyrir botni fjarða, t.d. inn af Leiruveginum á Akureyri, og geta þá verið ótrúlega spakir og rólegir.
Selurinn sem heimsótti Húsavík var að öllum líkindum ungt dýr sökum smæðar, en hann var uþb 1,5m að lengd. Hann reyndi mikið að komast upp á flotbryggjuna og það jafnvel þó menn stæðu innan við meter frá honum og fylgdust með! Ekki tókst honum þó að hífa sig upp á bryggjuna og lét hann sér því nægja að svamla um og jafnvel hvílast í lóðréttri stellingu á yfirborðinu eins og sést á þessari mynd.
Útbreiðsla kampsela er bundin við íshöfin og eru þeir ein aðalfæða ísbjarna. Fullorðin dýr geta orðið allt að 2,7m löng og rúmlega 400kg að þyngd. Latneska heiti kampsels,Erignathus barbatus, vísar annars vegar til sterkra kjálka (erignathus) og svo mikils og áberandi kamps (barbatus) sem er hans helsta einkenni. Kampselir leita sér fæðu að langmestu leyti á botni sjávar þar sem þeir næla sér m.a. í skelfisk, smokkfisk og fisk. Nota þeir kampinn sem veiðihár, til að greina yfirborð sjávarsetsins.
Myndband af kampselnum má sjá á facebook-síðu Birding Iceland.