Frá því í byrjun október hefur kampselur vanið komur sínar í höfnina á Húsavík. Hingað til hefur aðeins sést til hans á kvöldin þar sem hann hefur hvílt sig á skábrautinni sunnan Naustagarðs. Í gærmorgun fengum við þó að sjá hann í björtu og náðust af honum nokkrar myndir.
Útbreiðsla kampsela er bundin við íshöfin og eru þeir ein aðalfæða ísbjarna. Fullorðin dýr geta orðið allt að 2,7m löng og rúmlega 400kg að þyngd. Latneska heiti kampsels, Erignathus barbatus, vísar annars vegar til sterkra kjálka (erignathus) og svo mikils og áberandi kamps (barbatus) sem er hans helsta einkenni. Kampselir leita sér fæðu að langmestu leyti á botni sjávar þar sem þeir næla sér m.a. í skelfisk, smokkfisk og fisk. Nota þeir kampinn sem veiðihár, til að greina yfirborð sjávarsetsins. Kampselir eru jafnan sjaldséðir gestir við strendur landsins en þó fréttist af þeim árlega.