Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi hóf litmerkingar á snjótittlingum veturinn 2019-2020. Tveir starfsmenn Náttúrustofu Norðausturlands tóku þátt í verkefninu og hafa frá fyrrihluta árs 2021 merkt snjótittlinga við Víkingavatn, á Húsavík og í Grímsey. Snjótittlingarnir voru veiddir í gildru þar sem þeir komu í fóðurgjafir að vetrarlagi. Á þeim voru gerðar ýmsar mælingar, þeir ljósmyndaðir og merktir áður en þeim var sleppt aftur. Merki voru sett á báða fætur, hefðbundið álmerki á þann vinstri en á hægri fótinn var settur rauður plasthringur með hvítri áletrun. Áletrunin samanstóð af einum bókstaf og tveimur tölustöfum. Á góðu færi má svo lesa áletrunina með sjónauka eða með því að ljósmynda fuglana.

Búið er að merkja um 350 snjótittlinga með þessum litmerkjum og eru álestrar á þá orðnir eitthvað á fimmta hundrað. Langalgengast er að merktir snjótittlingar sjáist aftur á merkingastað en nokkrir hafa lagt land undir væng og fundist mis fjarri merkingarstað. Þannig hafa snjótittlingar merktir á Húsavík fundist við Víkingavatn, á Kópaskeri og í Jökuldal. Snjótittlingar merktir við Víkingavatn hafa fundist á Akureyri, Húsavík, Kópaskeri og í Jökuldal. Síðastliðinn sunnudag (28. nóvember) sást svo fyrsti litmerkti snjótittingurinn á erlendri grund. Það var kvenfugl sem merktur var við Víkingavatn, 5. apríl 2021 með auðkennisnúmerinu A39. Ekkert hafði spurst til A39 frá merkingu fyrr en tilkynning kom frá þýskum fuglaáhugamanni sem sá hann á eyjunni Amrum í Norðursjó, við strönd Þýskalands. Þetta er í fyrsta skipti sem snjótittlingur merktur á Íslandi sést í Þýskalandi svo vitað sé en þeir hafa fundist í öðrum löndum á þessum slóðum s.s. Danmörku og Hollandi. Flestir íslenskir snjótittlingar sem fundist hafa á erlendri grund hafa verið á Bretlandseyjum.



Við viljum hvetja alla sem fylgjast með fuglum að vera vakandi fyrir merkjum sem þeir geta borið og tilkynna ef þeir sjá slíkt. Almenna reglan er að tilkynna merkta fugla til Náttúrufræðistofnunar Íslands sem hefur umsjón með fulgamerkingum á Íslandi og kemur upplýsingunum áfram til þeirra sem merktu fuglinn. Upplýsingar um hvernig skila skal inn upplýsingum um merkta fugla má sjá á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar.





